Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði seinna mark Everton þegar liðið lagði Leicester City að velli með tveimur mörkum gegn einu í 32. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Goodison Park í kvöld.

Mark Gylfa Þórs kom úr vítaspyrnu á 16. mínútu leiksins en sex mínútum áður hafði Richarlison komið Everton á bragðið.

Kelechi Iheanacho minnkaði muninn fyrir Leicester City í upphafi seinni hálfleiks en lengra komust gestirnir ekki og 2-1 sigur Everton staðreynd.

Sigurinn fleytti Everton upp í 11. sæti deildarinnar en liðið hefur 44 stig þegar sex umferðir eru eftir af deildarkeppninni. Leicester City er hins vegar í þriðja sæti með 55 stig.

Pierre-Emerick Aubameyang skoraði tvö marka Arsenal í 4-0 sigri á móti botnliði deildarinnar, Norwich City, en Granit Xhaka og Cedric Soares skoruðu svo sitt markið hvor. Arsenal er í sjöunda sæti deildarinnar með 46 stig eftir þann sigur.

Þá kom Newcastle United sér lengra frá fallsvæði deildarinnar með því að bera sigurorð, 4-1, af Bournemouth sem er með 27 stig í næstneðsta sæti deildarinnar. Lærisveinar Steve Bruce hjá Newcastle United eru aftur á móti með 42 stig í 13. sæti.