„Já, auðvitað. Við erum búnir að fara á tvö stórmót í röð. Við viljum ekkert vera að breyta of mikið. Við viljum hafa stemnninguna í hópnum og umhverfið eins og það hefur verið síðustu fjögur fimm ár, síðan Lars og Heimir tóku við,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við Fréttablaðið eftir leikinn gegn Króatíu í kvöld, spurður hvort hann vildi hafa Heimi Hallgrímsson áfram sem landsliðsþjálfara.
Gylfi Þór sagði að ef Heimir myndi ákveða að halda ekki áfram með liðið þá vonaðist hann eftir því að næsta þjálfara myndu ekki fylgja of miklar breytingar. Liðið væri á góðri braut.
Gylfi Þór sagði að frammistaða íslenska liðsins á mótinu sýndi að liðið væri ekki langt frá þeim bestu. Þeir væru stoltir af frammistöðu sinni. Í dag hefði skort svolítið heppni og gæði til að klára þau færi sem gáfust. Það sama megi segja um fyrri hálfleikinn á móti Nígeríu.

Hann sagði að það að fara á stórmót væri það skemmtilegasta sem hann hefði upplifað. Um það væru þeir strákarnir allir sammála. Það væri gaman að geta skemmt þjóðinni með þeim hætti. „Stefnan er sett á næsta stórmót,“ sagði hann. „Við erum gríðarlega stoltir af því að hafa komist hingað en um leið svekktir og vonsviknir. Við hefðum alveg getað komist áfram.“