„Ég kannast ekki við ósætti milli míns og Eiðs Smára, nema þá að Guðjón Þórðarson viti eitthvað meira en ég,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við 433.is í dag, aðspurður út í sögusagnirnar.

Guðjón Þórðarson, fyrrum þjálfari íslenska karlalandsliðsins, sagðist hafa heimildir fyrir því að ósætti væri á milli Gylfa Þórs og Eiðs Smára Guðjohnsen í hlaðvarpsþættinum The Mike Show í gær.

Ósættið milli þeirra hefði gert það að verkum að Gylfi hefði ekki gefið kost á sér í landsliðsverkefnið.

KSÍ sagði að það væri persónuleg ákvörðun Gylfa vegna tilvonandi barneigna eiginkonu Gylfa, Alexöndru Helgu Ívarsdóttur.

„Það voru einhverjir sem spurðu mig út í þetta í gærkvöld en venjuleg amyndi ég ekki svara svona. Mér líkar mjög vel við Eið Smára og vildi því hreinlega klára þetta mál strax,“ segir Gylfi í viðtalinu og telur óþarfi að ræða þetta við Eið.

„Nei, nei, ég hef ekki talað við hann. Ég þarf ekkert að tala við hann, þetta er svo langt frá því að vera satt að maður nennir varla að svara fyrir þetta,“ segir Gylfi hreinskilinn í samtali við 433.is.

Gylfi bætir við að faraldurinn hafi sett strik í reikninginn þar sem ljóst væri að hann þyrfti að fara í fimm daga sóttkví ef han færi til móts við landsliðið og hann hafi ekki ætlað að missa af fæðingunni.

„Ákvörðunin var ekki erfið að vera ekki í hópnum, ég vildi ekki missa af fæðingunni,“ segir Gylfi en viðtalið í heild sinni má sjá hér.