Nú þegar keppni í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla er tæplega hálfnuð er útlit fyrir spennandi bara um meistaratitilinn sem og sæti í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni.

Gömlu erifjendurnir Liverpool og Manchester United, eru í tveimur efstu sætum deildarinnar en þar fyrir neðan eru svo lið í einum hnapp. Tíu stig skilja að Liverpool og Manchester United sem tróna á toppi deildinnar og Arsenal og Leeds United sem sitja í 10. og 11. sæti deildarinnar.

Everton og Aston Villa hafa komið liða mest á óvart á jákvæðan hátt og Arsenal á neikvæðan hátt. Leicester City er enn inni í titilbaráttunni. Leeds United hefur spilað einkar skemmtilegan fótbolta og Southampton og West Ham United virðast ætla að blanda sér baráttuna um Evrópusæti.

Fréttablaðið fékk íslenska stuðningsmenn nokkurra liða í ensku úrvalsdeildinni til þess að fara yfir fyrri hluta deildarinnar hjá liðum sínum sínum og nefna þau atrði sem helst yrði að laga. Auk þess fengu þeir það verkefni að nefna hvaða leikmenn væri heillavænlegast að kaupa í janúargluganum.

Kristinn Kjærnested, Liverpool: Aðstæður eru náttúrulega afar sérstakar þessa stundina en ég er svona þokkalega sáttur með gengi liðsins. Maður gerði sér grein fyrir því að yfirburðirnir frá síðasta tímabili yrðu ekki þeir sömu aftur. Skellurinn gegn Aston Villa var svaðalegur en að vera á toppnum og með bestu markatöluna er merki um styrkleika. Það eru hinsvegar klárlega viðvörunarbjöllur hjá liðinu, það er erfitt að verja titil, mikil meiðsli í leikmannhópnum og ég hef áhyggjur af áhrifum áhorfendaleysins.

Við Púlarar þekkjum hvernig er að vera á pökkuðum Anfield og er efins að 12. maðurinn sé jafn sterkur á öðrum völlum. Til að gæta sanngirnis þá nutum við góðs af 2.000 manns á okkar leikjum. Það munar miklu að hafa áhorfendur. Við sáum sem dæmi hverju 60 manna her Tólfunnar skilaði í Laugardalnum í haust.

Það var ánægjulegt hve vel gekk strax í Meistaradeildinni og við vorum búnir að negla okkur upp úr riðlinum fljótlega, aldrei þessu vant. Heilt yfir þá höfum við verið nokkuð sannfærandi í mörgun deildarleikjum en enn og aftur, tímabilið er skrýtið, úrslitin verða óvænt áfram og mögulega vinnst mótið á um 80 stigum.

Það sem þarf að laga er það sem er eflaust erfiðast að laga fyrir Jürgen Klopp, þar er meiðslin. Leikstíllinn og ákefðin er slík að hætta er á meiðslum og svo er allt miklu verra nú en áður. Ýmislegt annað hefur einnig áhrif hjá liðum, Covid-veikindi og sóttkví. Maður reitir grátt hár sitt vegna Joël Matip, Naby Keita og Xherdan Shaqiri sem virðast fyrirmunað að haldast heilir nema í nokkrar vikur.

Kaupin á Diego Jota voru sterk og hann staðið sig heldur betur vel. Jota er gríðarleg uppfærsla miðað við Origi sem virðist alveg búinn á því og við ættum að selja hann í lok janúar að mínu mati.

Þá hefur Fabinho verið frábær í miðverðinum. Mo Salah drúgur í markaskorun en getur tryllt mann þess á milli þar sem hann getur ekki haldið bolta eða hitt á samherja. Fyrirliðinn, Jordan Henderson er síðan mjög mikilvægur en minn maður er skoska stoðsendingarvélin, Andy Robertson. Klopp hefur einnig verið seigur í allskonar væli á þessari leiktíð sem er partur af leiknum. Mér finnst maður pínulítið upplifa það að Klopp fái ekki nægilega mikið lof fyrir sína vinnu. Kappinn er snillingur.

Við verðum að kaupa miðvörð í janúar. Ég tel að við sleppum með að kaupa einn en hann verður að koma úr ensku úrvalsdeildinni, hafa reynslu þaðan og geta stigið strax inn. Er viss um að vinna þess efnis sé á fullu bak við tjöldin frægu. Jan Bednarek frá Southampton gæti verði flottur kostur fyrir Liverpool. Við ættum að vita númerið hjá Dýrlingunum. Við vinnum ekki deildina án liðsauka í hjarta varnarinnar. Þið lásuð það samt ekki fyrst hér.

Bruno Fernandes er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Manchester United.
Fréttablaðið/Getty

Halldór Marteinsson, Manchester United: Ég er afar sáttur við gengið í ensku úrvalsdeildinni. Þrátt fyrir að þessi þrjú töp hafi öll verið mikil vonbrigði, hvert á sinn hátt, þá er frábært að vera í öðru sætinu um áramótin með jafn mörg stog og toppliðið.

Karakterinn í liðinu hefur verið mikill þegar kemur að því að snúa tapstöðu í sigur, sérstaklega á útivöllum. Liðið er að skora mikið í lok leikja og það virðist vera að koma upp trú í liðinu að þeir geti alltaf komið til baka. Það hefur maður ekki alltaf séð hjá Manchester United síðustu ár.

Það er kannski óþarfi að lenda undir í svona rosalega mörgum leikjum. Liðið mætti byrja leiki betur. Heimavöllurinn þarf líka að verða vígi aftur, algjör synd að liði sé að henda frá sér svona mörgum stigum á heimavelli.

Á árinu 2020 hefur enginn leikmaður á Englandi verið betri en Bruno Fernandes. Gjörsamlega frábær leikmaður sem hefur verið algjör vítamínsprauta inn í liðið.

Annar leikmaður sem má fá sérstakt hrós fyrir tímabilið er Marcus Rashford. Flott fyrirmynd innan sem utan vallar, er sífellt að vinna í að bæta sinn leik og mun vonandi halda áfram að blómstra hjá Manchester United. Hefur líka þennan eiginleika að taka af skarið þegar á þarf að halda og skorar mikilvæg mörk.

Helstu stöðurnar sem þyrfti að kaupa í núna í janúar væru topp miðvörður varnarsinnaður miðjumaður. Mér finnst Victor Lindelöf alveg fínn leikmaður og betri en hann fær oft kredit fyrir en það væri uppfærsla að finna betra mótvægi við Harry Maguire. Bailly gæti verið sá maður en á erfitt með að haldast heill. Ég myndi kaupa Dayot Upamecano frá RB Leipzig í þá stöðu.

Öflugur varnarsinnaður miðjumaður myndi gera mikið bæði fyrir miðju og vörn United. Spurning hvort það sé ekki kominn tími á að Inter sendi eins og einn leikmann til baka, myndi alveg þiggja einn Marcelo Brozovic.

Hægri kanturinn er auðvitað önnur staða sem þyrfti að skoða betur en Amad Diallo er að mæta á svæðið í janúar. Hann er ungur en mjög efnilegur og verður spennandi að sjá hvort hann fái einhver tækifæri strax með liðinu.

Leifur á góðri stundu með Duncan Ferguson, aðstoðarmanni Carlo Ancelotti hjá Everton.

Leifur S. Garðarsson, Everton: Ég er mjög sáttur við liðið það sem af er tímabili. Auðvitað er einhverjir leikir sem hefði verið gaman að taka fleiri stig úr, sérstaklega þegar við erum að standa okkur frábærlega gegn þeim liðum sem eiga að tilheyra hópi sterkari andstæðinga. En heilt yfir mjög gott tímabil það sem af er.

Mesta bætingin hefur legið í því að sigra jafna leiki, en ekki missa þá í tap eða óþarfa jafntefli. Það ánægjulegasta hefur þó verið að fylgjast með frammistöðu Gylfa Sigurðssonar undanfarið. Enn á ný sýnir hann og sannar hversu öflugur persónuleiki og íþróttamaður hann er, sigrast á hverri raun þegar vindar blása á móti. „The Sig“ er framúrskarandi leikmaður sem gerir Everton liðið betra með leikskilningi sínum, útsjónarsemi og færni.

Helst myndi maður vilja sjá betri frammistöðu á vængjunum. Richarlison hefur ekki alveg fundið sig og þegar það gerist er hann fýlugjarn. Alex Iwobi á leik og leik eða öllu heldur hluta úr leikjum. Þegar James Rodriquez spilar þá sækir hann meira inn á völlinn en að leika sem vængmaður. Þannig að ég myndi vilja sjá meiri hraða og gæði í vængspili liðsins. Líklega gerist það ekki nema með kaupum á gæða kantara.

Nokkrir leikmenn hafa átt mjög flotta leiki. Dominic Calvert-Lewin hefur skorað mikilvæg mörk, Abdoulaye Doucouré tók til sín þegar Allan meiddist, Gylfi Þór hefur verið mjög sterkur undanfarið. En sá sem hefur verið hvað jafnbestur að mínu mati er miðvörðurinn Michael Keane. Hann hefur stjórnað varnarleiknum eins og herforingi og vaxið mjög í leik sínum.

Eins og ég minntist á þá þyrfti öflugan vængmann. Í villtustu draumum væri það helst Son Heung-min, leikmaður Tottenham. Sá myndi hressa verulega upp á vængspilið hjá mínum mönnum. Kannski væri aðeins meiri raunsæi í að bæta við pólska framherjanum Arkadiusz Milik hjá Napoli á Ítalíu. Hann gæti veitt DCL meiri samkeppni heldur en þeir framherjar sem fyrir eru gera í dag. Oliver Giroud gæti líka nýst í það hlutverk. Hann virðist skora í hvert skipti sem hann reimar á sig takkaskó.

Jóhann Gunnar Einarsson, Aston Villa: Ég er í skýjunum með leiktíðina hjá Aston Villa. Eftir að hafa verið í fallbaráttu fram í síðustu umferð á síðasta tímabili þá hefur byrjunin verið frábær. Við höfum verið að ná frábærum úrslitum og stendur 7-2 sigurinn á Liverpool upp úr. Við gefum öllum liðum leik, ótrúlega skemmtilegir fram á við þar sem Grealish stjórnar umferðinni og svo traustir varnarlega.

Við erum að byrjaðir að halda hreinu, búnir að halda oftar hreinu en á síðasta tímabili nú þegar. Erum að vinna leiki á útivelli. Allir sem voru keyptir hafa smellpassað í liðið. Það er rosalega góður andi í liðinu, allir að hrósa öllum á samfélagsmiðlunum og ég veit ekki hvað.

Eftir eyðimerkurgöngu síðustu ár þá er byrjunin á þessu tímabili fullkomin í augum atuðningsmanna Aston Villa. Það mætti kannski auka breidd fram á við, en ég er rosalega sáttur með allt saman.

Ef ég á að taka einhverja út fyrir sviga þá er það Emiliano Martinez, markvörðurinn sem við fengum frá Arsenal. Með tilkomu hans er liðið loksins komið með frábæran markman. Svo er Jack Grealish eiginlega búinn að vera bestur í deildinni. Hann mætti kannski setja tappann í flöskuna, þá yrði ég sáttur Ég myndi vilja fá Tammy Abraham aftur frá Chelsea til að auka breiddina í framlínu liðsins en hann kom okkur eiginlega upp í úrvalsdeildina þegar hann var á láni hjá okkur fyrir í næstefsu deild. Svo kannski bara Dele Alli til að auka breiddina inni á miðjunni.

Jóhann Gunnar Einarsson á þá ósk heitasta að Jack Grealish minnki skemmtanalíf sitt.

Jóhann Már Helgason, Chelsea: Það er ekki hægt að vera sáttur við það að sitja í áttunda sæti deildarinnar, við stuðningsmenn Chelsea erum ekki vanir slíkri meðalmennsku. Eftir jákvætt tímabil í fyrra að þá var mikil eftirvænting fyrir núverandi tímabili, enda galopnaði Roman Abramovich veskið sitt síðasta sumar.

Nýju leikmennirnir hafa margir hverjir staðið sig mjög vel eins og Hakim Ziyech, Thiago Silva, Edouard Mendy og Ben Chilwell. En aftur á móti hafa bæði Kai Havertz og Timo Werner ekki náð sér fyllilega á strik sem er áhyggjuefni.

Ég er ánægðastur með að Lampard skuli hafa náð ákveðinni kjölfestu í liðinu varnarlega. Í fyrra var gríðarlegt ójafnvægi í öftustu línu Chelsea og Kepa Arrizabalaga olli svakalegum vonbrigðum. Með tilkomu Mendy, Silva og Chilwell er Chelsea allt einu komið hörku góða vörn sem hægt er að byggja liðið í kringum.

Liðið þarf að nýta betur yfirburði sína í leikjum og ná að “drepa” leikina fyrr. Slæm töp gegn til að mynda Wolves og Everton, þar sem liðið er klárlega sterkari aðilinn í leiknum, eru leikir sem eiga ekki að tapast. Lampard mætti líka vera duglegri að hrissta aðeins upp í hlutunum taktísktlega séð – hann mætti t.d. prófa að spila með tvo framherja í leikjum þar sem liðið er með mikla yfirburði.

Ætla að nefna þrjá leikmenn sem bestu leikmenn vetrarins. Fyrstur er Reece James, hann er búinn að vera frábær í hægri bakverðinum og hefur hent fyrirliðanum, Cesar Azpilicueta, á bekkinn. Næstur er Thiago Silva, hann gerði ein slæm mistök í sínum fyrsta leik í deildinni en hefur síðan þá verið virkilega góður og er maðurinn sem bindur þessa vörn saman og leiðir Kurt Zouma í gegnum alla leiki.

Að lokum er það svo hann Mason Mount, hann er í aðeins öðruvísi hlutverki en í fyrra, spilar aðeins aftar á miðjunni, en hann er í raun “vélin” í þessu liði og sá leikmaður sem Chelsea saknar hvað mest þegar hann er ekki inni á vellinum. Ég vil svo segja að líklega væri Hakim Ziyech efstur á þessum lista ef hann hefði bara spilað fleiri leiki, en meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá honum.

Sökum meiðsla hjá bæði Pulisic og Ziyech hafa mínir menn verið ansi þunnskipaðir í vængmannastöðunum. Ég væri því alveg til í að sjá leikmenn eins og Pedro Neto eða Jack Grealish í kóngabláu treyjunni.

Birgir Ólafsson, Tottenham Hotspur: Maður er nú búinn að halda með Tottenham í einhver 35 ár og ganga í gegnum súrt og sætt, aðallega súrt. Ég er bara alveg ágætlega ánægður með gengið á tímabilinu, spilamennskan samt verið upp og niður. Líklega ánægðastur með frammistöðu Son Heung-min og Harru Kane á tímabilinu og svo hvað Pierre-Emil Hojbjerg hefur smollið vel inn í liðið.

Það mætti laga varnarleikinn og svo auðvitað þessi gamla klisja að liðið fellur of mikið tilbaka þegar það er með forystu - með mjög sterkt lið sóknarlega , sem fær kannski ekki nægilega að njóta sín. Ég myndi vilja kaupa hágæða miðvörð til að stjórna vörninni með harðri hendi. Það er svona eina staðan sem ég sé í fljótu bragði að mætti bæta.

Sigurður Helgason, Manchester City: Ég get ekki sagt að ég sé sáttur með liðið í fimmta sæti. Hins vegar á City tvo leiki til góða og gæti með sigri í báðum komið sér í þá stöðu að komast upp fyrir eftir Liverpool og Manchester United sem eru efst. Hins vegar er þetta erfitt þegar þú átt tvo leiki til góða og staðan frekar óljós.

Vonandi þarf ekki að fresta fleiri leikjum hjá City því álagið er nóg núna. Ef ég man rétt eru tveir lausir leikdagar hjá City fram að mótslokum ef þeim gengur vel í bikarnum og Meistaradeildinni.

Vörnin hefur verið ljósi punkturinn fyrir utan þetta vítarugl í Leicester-leiknum. Ruben Días hefur komið feykilega öflugur inn og svo er eins og við séum með nýjan leikmann í endurkomu John Stones. Fyrir vikið hefur Aymeric Laporte þurft að víkja en hann hefur verið stöðugastur síðan hann kom til City.

Það þarf að nýta breiddina í leikmannahópnum út tímabilið svo hann mun spila fullt af leikjum. Við þurfum hugsanlega að vera árásargjarnari fram á við þegar við vinnum boltann aftarlega á vellinum. Við leyfum yfirleitt öllum liðum að pakka í vörn við eigin vítateig. Það hefur gert það að verkum að erfitt er að skapa færi sem leiðir til færri marka. Lagast vonandi með Sergio Agüero eftir áramót. Ferran Torres kom funheitur inn í byrjun og stóð sig mjög vel. Síðan hafa Ederson, Días, Joao Cancelo og Iklay Gündogan verið að leika vel.

Gömlu refirnir Raheem Sterling og Kevin De Bruyne hafa ekki verið nógu ferskir og spilar væntanlega leikjaálagið þar inní. Það þarf að nota breiddina í hópnum vel eftir áramót því 2021 verður mjög erfitt fyrir öll lið. Það er svo klárt mál að við þurfum tvo af þessum þremur í janúarglugganum. Erling Braut Haaland, Jack Grealish og Wilfred Ndidi.

Rúben Dias hefur komið sterkur inn í varnarleik Manchester City.
Fréttablaðið/Getty

Þröstur Guðmundsson, Manchester City. Við City-menn erum aldrei sáttir við annað en fyrsta sætið og í raun er algjört lágmark að vera með tvo stig per leik. Það þarf samt að skoða deildina í heild og það er í raun ekkert lið sem er að sýna það að það sé klárlega meistaralið.

Liverpool sem eru efstir hafa sem dæmi tapað 18 stigum í aðeins 17 leikjum sem hefði aldrei skilað þeim í efsta sæti síðustu árin. En stigasöfnun City hafa verið mjög léleg þannig að maður er engan veginn ánægður með gengi liðsins.

Ég hefur verið ánægðastur með vörnina. Rúben Dias hefur komið rosalega sterkur inn og bundið saman vörnina. Hann er aðeins 23 ára en hefur spilað nánast óaðfinnanlega. Menn tala um að John Stones hafi átt góða endurkomu en það er að mínu mati allt Dias að þakka.

Dias stýrir vörninni er alltaf talandi og virkar klárlega mikill leiðtogi og gefur Stones það öryggi sem honum vantaði. Það er fáránlega lítið talað um þetta en Dias er klárlega búinn að vera jafnasti og besti varnarmaðurinn í deildinni þetta tímabilið. Hann er búinn að gjörbreyta varnarleik City frá því að vera grín í leiknum á móti Leicester í bestu vörnina í deildinni. Vonandi er þarna kominn maðurinn sem tekur sæti Vincent Kompany , hann byrjar allavegana mjög vel.

Ég held ennþá að Liverpool vinni deildina finnst þeir vera best þjálfaða og heilsteyptasta liðið. Enn á þessu tímabili held ég að það lið sem nær 85 stigum vinni deildina. Það er mikilvægt að halda sér inni í baráttunni fram á vorið. Gæti orðið rosalegur endasprettur og þá kemur í ljós hver staðan á mannskapnum er.

Það sem þarf að laga er að nýta betur dauðafærin. Ef dauðafærin væru betur nýtt þá væri staða liðsins allt önnur. Sem dæmi má nefna dauðafærin tvo undir lok leiks gegn West Ham, vítaspyrna gegn Liverpool, fullt af færum gegn Tottenham, og tvö algjör dauða dauða færi undir lok leiks gegn WBA. Þetta eru bara dæmi úr leikjum sem töpuðust stig.

Svo finnst mér að pressan framar á völlinn vanti og meiri hraði í spili liðsins. Ég held samt að ástæðan sé skrítið tímabil með miklu leikjaálagi engu undirbúningstímabili og áhorfenda leysi geri það að verkum að ekki sé fullkomlega marktækt að dæma leikstíl liðana þetta tímabilið.

Ég hef ekki verið alveg nógu ánægður með Pep Guardiola undanfarið og þá hvernig hann stýrir leikjum . Hann notar Phil Foden of lítið finnst mér fyrir utan leikina í Meistaradeildinni. Hann notar seint og lítið varamenn sína. Hafandi sagt það þá er þetta þannig tímabil að kannski er best að dæma menn eftir að tímabilinu lýkur og sjá þá hver árangurinn er.

Kevin De Bruyne hefur ekki verið nálægt sinni venjulegri getu en hann er bara svo skuggalega góður í fótbolta að hann er samt með betri leikmönnum deildarinnar City á hann algjörlega inni þetta tímabilið.

Hægri bakverðirnir Kyle Walker og Joao Cancelo hafa verið mjög góðir þó að inn á milli sýna þeir lélega takta.

Okkur vantar framherja þar sem Sergio Agüero er alltaf meiddur þessa dagana og hefur ekki skorað eitt deildarmark þetta tímabil, talandi um að eiga leikmann inni. Gabriel Jesús er ekki að finna þann stöðugleika sem til þarf . Þannig að Erling Braut Haaland er framherjinn sem maður myndi helst vilja fá. Svo fyrst að það er möguleiki þá væri geggjað að fá Lionel Messi.

Hann yrði bara í stuttan tíma hjá City þannig að ég held að það myndi ekki eyðileggja neinn móral eða að hann kæmi og myndi ráða öllu eins og hann gerir í Barcelona. Að geta fengið sér City treyju með Messi á bakinu væri svaðalegt þó ekki nema bara til að sjá svipinn á öllum City haters þarna úti.

Leifur Grímsson, Leeds United: Já ég get varla verið annað en sáttur við tímabilið enn sem komið er. Fyrir tímabilið var ég að vonast til að við yrðum um miðja deild. Gerði mér þó grein fyrir að það væri til mikils ætlast af liði sem er lítið breytt frá því að það lenti í 13. sæti í næstefstu deild tímabilið áður en meistari Marcelo Bielsa tók við því.

Ég hef verið mjög ánægður með að sá gamli hefur haldið sig við sinn bolta þrátt fyrir smá áföll hér og þar. Það sem mætti kannski helst laga er hvernig liðið verst í föstum leikatriðum og grasið á Elland Road.

Flestir staðið sig vel en vil þó sérstaklega nefna Luke Ayling, Stuart Dallas, Kalvin Phillips og auðvitað hinn gáfaða Patrick Bamford. Ég á síður von á að Bielsa bæti við hópinn í janúar glugganum, held að hann sé frekar að undirbúa sumargluggann. Það tekur yfirleitt leikmenn einn til tvo mánuði að komast almennilega inn í „Bielsa ball“ og ná því líkamlegu ástandi sem Bielsa ætlast til að sínum mönnum.

Janúar hentar því ekki vel til stórinnkaupa. Hins vegar blasir við þurfum styrkingu á miðsvæðinu, einhverja góða „áttu“ til að bakka Klick betur upp. Það er eitthvað verið að orða okkur við ungan Spánverja hjá Barcelona, Riqui Puig, mér líst vel á að fá hann. Svo mæli ég með því að Leeds kaupi Ísak Bergmann Jóhannesson en ég held að hann smellpassi í „Bielsa ball“.

Marcelo Bielsa hefur komið með ferska vinda inn í ensku úrvalsdeildina.
Fréttablaðið/Getty

Jón Kaldal, Arsenal: Hluti fyrri umferðar mótsins var hroðalegur, versti kafli sem ég hef orðið vitni að. Eftir 56 daga án sigurs í deildinni breytti Arteta loks liðinu og taktíkinni og uppskar þrjá sigra í röð í jólatörninni. Vonandi ávísun á betri tíma en ég er ekki sannfærður.

Fjórir ungir leikmenn hafa verið ljóstýran sem lýsti upp þetta myrkur sem virtist ætla að gleypa félagið. Tveir koma úr akademíunni, Bukayo Saka og Eimie Smith-Rowe, og tveir frá Brasilíu, Gabriel Martinelli og Gabriel Magalhaes.

Stærsta vandamál Arsenal er fólkið bak við tjöldin. Mikið rót hefur verið á þeim sem stýra félaginu, meðal annars þeim sem halda utan um leikmannakaup og samninga. Félagið mun ekki taka flugið á ný fyrr en festa fæst með öflugu og reynslumiklu stjórnendateymi.

Efstur á óskalistanum er skapandi og vinnusamur miðjumaður sem getur spilað með bakið í markið og líður vel í litlu plássi í kringum vítateig andstæðinganna. Af þeim sem hafa verið orðaðir við Arsenal líst mér best á Houssem Aouar hjá Lyon. Hann er fæddur 1998 og er á réttum aldri til að koma inn í nýtt lið sem Arsenal verður að byggja upp.