„Þetta var góð leið til að svara gagnrýnisröddunum. Við höfum leikið vel í undanförnum undankeppnum og gert það sem til þurft. Það er frábært að vera komnir með níu stig eftir fjóra leiki og búnir með Frakkana úti,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, feginn eftir 2-1 sigur á Tyrkjum í kvöld.

„Þetta gekk mjög vel, leikplanið gekk eins og í sögu og við fengum tvö mörk snemma leiks. Það var svekkjandi að fá á okkur þetta mark undir lok fyrri hálfleiks en okkur leið vel þótt að þeir væru mikið með boltann. Þeir fengu ekki færi fyrr en undir lokin þegar þeir settu meiri pressu á okkur.“

Jón Daði Böðvarsson kom aftur inn í liðið og naut Gylfi Þór góðs af því.

„Jón Daði var frábær í þessum leik. Hann er ekki búinn að spila lengi og það kom mér á óvart hversu vel hann spilaði en mér finnst mjög þægilegt að spila með honum. Hann heldur bolta vel uppi og er duglegur að sækja aukaspyrnur og gul spjöld auk þess að ógna miðvörðum andstæðinganna. Hann var frábær í kvöld.“

Gylfi er að fara að gifta sig á næstu dögum og tekur nú við undirbúningur fyrir brúðkaupið.

„Það er komin mikil spenna, það er búið að þurfa að skipuleggja mikið en ég er orðinn mjög spenntur.“