Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, mun vera í treyju númer tíu hjá Everton í vetur en hann tekur við treyjunni af Wayne Rooney sem yfirgaf uppeldisfélag sitt fyrr í sumar.

Var Gylfi búinn að leika nokkra æfingarleiki í treyjunni í aðdraganda tímabilsins en Everton gaf út hvaða númer leikmenn væru með á bakinu á komandi tímabili í dag.

Var hann í treyju númer átján á fyrsta tímabili sínu hjá félaginu en er nú kominn í treyju númer tíu sem sæmir dýrasta leikmanni í sögu félagsins. Tók Morgan Schneiderlin gömlu treyju Gylfa og verður númer átján í vetur.

Brasilíski kantmaðurinn Richarlison tók treyju númer 30 og fékk franski bakvörðurinn Lucas Digne treyju númer tólf.