Málsmeðferð lögreglu í máli Gylfa Sigurðssonar lítur eðlilega út, úr fjarlægð séð, að mati Maríu Rúnar Bjarnadóttur, verkefnastjóra hjá Ríkislögreglustjóra og aðjúnkts við Háskólann á Akureyri. Jákvætt sé að vita að þó menn séu frægir fótboltamenn þá sé ekki hægt að kaupa sig fram fyrir röð og Gylfi þurfi því að bíða eins og aðrir.

Dr. María Rún lauk doktorsprófi í lögfræði við Sussex-háskóla og er höfundur skýrslu um kynferðislega friðhelgi og frumvarps um sama efni, sem varð að lögum í febrúar síðastliðnum.

Gylfi Þór Sigurðsson er áfram laus gegn tryggingu á meðan lögreglan í Manchester rannsakar mál hans. Hann var handtekinn í júlí í fyrra og er í farbanni frá Bretlandseyjum meðan málið er í rannsókn.

„Hann er laus gegn tryggingu sem þýðir sennilega að lögreglan sé ekki með nægileg gögn til að taka ákvörðun um útgáfu ákæru. Það getur verið vegna þess að hún á eftir að afla frekari gagna eða sé ekki búin að fara í gegnum það sem hún er með í höndunum,“ segir María og ítrekar að hún geti aðeins tjáð sig almennt um meðferð sambærilegra mála, þar sem hún þekki ekki alla málavöxtu.

Hún bendir á að það þurfi að endurskoða tímarammann á lausn gegn tryggingargjaldi og þar þurfi að gæta meðalhófs, en Gylfi hefur þrisvar verið dæmdur í áframhaldandi farbann síðan rannsókn hófst.

„Það þarf auðvitað að vera eitthvað að frétta í rannsókninni til að það sé ákveðið að halda honum áfram gegn tryggingu. Ef það er ekkert að gerast, engin gögn að berast og engin vinna í gangi, er ólíklegt að dómstólar fallist á framlengingu svona þvingunarúrræða. Þannig virkar það almennt,“ segir María.

Fjölmiðlar í Bretlandi hafa ekki nafngreint Gylfa af lagalegum ástæðum. María segir fjölmiðla í Bretlandi lúta skýrum reglum um hvenær megi nafngreina fólk og hvenær ekki.

„Réttarfarið í Bretlandi er þannig að það eru kviðdómendur. Þá er hætta á að fjölmiðlar geti haft áhrif á afstöðu kviðdómenda um málið áður það er tekið fyrir.“

Mál Gylfa hefur vakið mikla athygli á Íslandi, enda um að ræða einn mikilvægasta mann landsliðsins undanfarin ár. María segir að það væri ekki réttlátt ef ríkur fótboltamaður færi fram fyrir röðina. Hann verði því að bíða eins og aðrir sem sæta rannsókn.

„Það sem er jákvætt, ef maður hugsar um það þannig, er að Gylfi er ekki að fá aðra meðhöndlun en hver annar. Ég skil að það eru miklir hagsmunir í húfi, hann er mikil stjarna, en þá er gott að hann geti ekki farið fram fyrir röðina. Það væri ekki réttlátt. Það eiga ekki að gilda sér reglur ef þú ert ríkur eða í ábyrgðarmiklu starfi. Auðvitað gæti það verið en ég kannast ekki við það,“ segir María.

Hún bendir loks á að sé lögreglan að ná í gögn, til dæmis af samskiptamiðlum, sé mismunandi eftir lögsögu hversu auðsótt það sé. Það geti líka tekið langan tíma.

„Ef lögreglan er að skoða samskipti sem hafa átt sér stað þá eru sönnunar­kröfur til þeirra gagna og hvernig þau eru lögð fram mismunandi eftir lögsögu. Í Bretlandi eru gerðar strangar kröfur til þess. Það er auðvitað margt í þessu máli sem maður veit ekkert um nema vera með allar upplýsingar, sem við höfum ekki,“ segir María.