Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur mistókst að komast í gegnum niðurskurðinn á WPGA International mótinu í Englandi sem var hluti af LETA-mótaröðinni er hún kom í hús á sex höggum yfir pari á öðrum hring í dag.

Lauk hún keppni á 152 höggum eða átta höggum yfir pari og var þremur höggum frá því að ná niðurskurðinum.

Guðrún fékk einn fugl í dag á fjórðu holu vallarins en fékk sjö skolla og tíu pör. Fékk hún alls fjóra fugla á hringjunum tveimur, tíu skolla og einn skramba.

Í viðtali við Fréttablaðið á dögunum sagðist hún stefna að því að ná tveimur mótum til viðbótar á LETA-mótaröðinni ásamt því að gera atlögu að LET-mótaröðinni í haust.