Guðrún Brá Björgvinsdóttir, kylfingur ur Golfklúbbnum Keili, náði markmiði sínu um að tryggja sér nánast fullan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni í golfi kvenna. Um er að ræða næststerkustu atvinnumótaröð sem fram fer í golfi á hverju ári og því er þetta mikill áfangi hjá Guðrúnu Brá sem var mjög fegin þegar Fréttablaðið náði tali af henni.

„Fyrir lokahringinn var ég búin að áætla að það myndi duga mér að leika á betra skori en fjórum höggum yfir pari vallarins og því var ég nokkuð róleg þegar ég kom í hús á tveimur höggum yfir pari vallarins á lokahringnum. Það þýddi að ég spilaði hringina fimm á þremur höggum yfir pari og ég var nokkuð viss um að það myndi skila tilætluðum árangri. Það var svo þægileg tilfinning að fá grun minn staðfestan,“ segir Guðrún Brá, sem hafnaði í 10.–19. sæti á lokastigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina á La Manga í gær og tryggði sér þar af leiðandi fastan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.

„Það er mikill léttir að þetta sé í höfn en tilfinningin er held ég ekki alveg komin í gegn. Þetta var löng törn og mikið andlegt og líkamlegt álag þessa fimm keppnisdaga. Ég er ánægð með að hafa stöðugt golf þó að ég hefði viljað pútta heilt yfir á mótinu, sérstaklega á lokahringnum.

Stutta spilið er eitthvað sem ég get unnið í en það sem mestu máli skiptir er að þátttökurétturinn er í höfn. Ég var nálægt því að komast inn í fyrra og var staðráðin í að tryggja mér farseðilinn á mótaröðina að þessu sinni,“ segir þessi öflugi kylfingur eftir að hafa tekist ætlunarverk sitt á La Manga á Spáni.

„Ég var búin að undirbúa mig mjög vel fyrir úrtökumótið en ég gerði svo sem ekkert nýtt í æfingarútínunni hjá mér fyrir þetta mót. Ég æfði bara vel og markvisst í aðdraganda mótsins. Það komst fátt annað að hjá mér síðustu vikurnar fyrir þetta mót en að búa mig undir það eins vel og nokkur kostur var,“ segir Guðrún Brá, sem var greinilega harðákveðin í að takast að láta draum sinn rætast.

Hjálpaði mér mjög mikið að hafa pabba mér við hlið

„Eins og staðan er núna er þreytan sterkari en sigurtilfinningin en það mun líklega breytast á næstu dögum. Þetta er markmið sem ég hef stefnt að síðan ég fór að leika golf á mótum erlendis og það verður spennandi að keppa á svona sterkri mótaröð. Ég var ekkert búin að skipuleggja árið en nú fer ég heim og set upp dagskrá.

Fyrsta mótið er í Ástralíu í lok febrúar og ég get varla beðið eftir því að fara þangað. Ég verð með þátttökurétt sem er ekki alveg á öllum mótunum. Það gæti verið að ég verði ekki með á sterkustu mótunum á mótaröðinni á þessu tímabili en það kemur bara í ljós,“ segir hún enn fremur.

Tveir íslenskir kylfingar eru komnir með þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á komandi keppnistímabili en auk Guðrúnar Brár mun Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbnum Leyni, keppa á mótaröðinni á tímabilinu.

Þetta var í þriðja skipti sem Guðrún Brá reyndi við úrtökumótaröðina og allt var þegar þrennt var. Guðrún Brá verður fjórði Íslendingurinn til þess að keppa á Evrópumótaröðinni en Ólöf María Jónsdóttir var sú fyrsta, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir önnur í röðinni og Valdís Þóra Jónsdóttir sú þriðja.

„Mér leið afar vel á hringunum fimm og var í góðu andlegu jafnvægi heilt yfir. Ég var að slá teighöggin og lengri höggin vel og það gaf mér mikið sjálfstraust. Það hjálpaði mér svo mikið að hafa pabba með sem kylfusvein og aðstoðarmann. Hann gat gefið mér góð ráð og svo var líka bara þægilegt að hafa einhvern sem ég þekkti með bæði á hringunum sjálfum og milli þeirra,“ segir Guðrún en faðir hennar, hinn margreyndi kylfingur Björgvin Sigurbergsson, var henni til halds og trausts á mótinu.

„Nú tekur við stutt stopp heima þar sem ég hleð batteríin og set svo upp plan fyrir næstu verkefni hjá mér. Þetta er staða sem ég hef ekki verið í áður en ég ætla mér að standa mig á þessu stóra sviði,“ segir Hafnfirðingurinn, sem hefur orðið Íslandsmeistari í höggleik tvö ár í röð. Þar áður varð hún hlutskörpust á Íslandsmótinu í holuleik árið 2017. Guðrún Brá hefur spilað á LET Access-mótaröðinni undanfarin ár en hún hefur reglulega fengið boð um að keppa á mótum á Evrópumótaröðinni. Fram undan er hins vegar annað landslag og sterkari andstæðingar hjá henni.