Guðrún Brá Björgvinsdóttir atvinnukylfingur úr GK er í góðri stöðu eftir fyrsta hring sinn á lokamóti tímabilsins á LET mótaröðinni sem fram fer þessa dagana í Barcelona.

Guðrún Brá lék fyrsta hring mótsins á tveimur höggum undir pari vallarins í dag og var jöfn tveimur öðrum kylfingum í öðru sæti þegar hún lauk leik.

Hún nældi sér í þrjá fugla og fékk svo einn skolla á hringnum en paraði síðan hinar holurnar fimmtán. 

Hafnfirðingurinn er tveimur höggum á eftir svissneska kylfingnum Caroline Rominger sem er í forystu.  

Alls eru leiknir þrír hringir á þessu móti, en lokahringurinn fer fram á laugardaginn kemur. Fyrir mótið er Guðrún Brá í 71. sæti stigalistans.