Á næstu vikum verður haldið uppboð á treyjum úr safni Gunnleifs Gunnleifssonar markmannsins reynslumikla sem leikur með karlaliði Breiðabliks í knattspyrnu.

Treyjurnar koma víðs vegar að frá löngum ferli Gunnleifs bæði með félagsliðum og landsliðsinu. Um er að ræða skiptitreyjur eftir leik og gjafatreyjur frá vinum og félögum.

Hægt verður að næla sér í treyjur sem koma allt frá Íran til Frakklands og Waregem til Man City, liðsins sem Gunnleifur heldur með í enska bolanum.

Boðnar verðar upp þrjár treyjur í einu sem seljast einar og sér. Það er fotbolti.net sem heldur utan um uppboðið en einnig verða treyjur sem ekki fara á uppboð þar til sölu á slá í Jóa Útherja.

Treyjurnar á uppboðinu verða til sýnis á veitingastaðnum Sport og Grill í Smáralind. Allur ágóði af sölunni rennur til Pieta samtakanna sem eru forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum.