Gunnar Nelson tapaði hnífjöfnum bardaga sínum fyrir Brasilíumanninum Gilbert Burns á UFC-bardagakvöldinu í Royal Arena í Kaupmannahöfn. Það var einróma ákvörðun dómaranna. Bardaginn var einn aðalbardaga kvöldsins en þrír bardagar voru á undan honum.

Bardaginn byrjaði rólega og voru kapparnir nokkuð jafnir í fyrstu lotunni. Báðir eru þeir þekktir fyrir hæfileika sína í gólfinu en þeir hæfileikar fengu lítið að skína í fyrstu lotunni. Önnur lota byrjaði líka rólega en er óhætt að segja að Burns hafi unnið hana eftir að hafa náð hættulegri fellu á Gunna og hnésparki í andlitið á honum.

Burns náði svakalegu hnésparki í andlitið á Gunna í annarri lotu.

Þriðja og síðasta lotan var einnig hnífjöfn framan af. Burns náði svo fellu á Gunna í lokin sem skilaði honum sigri í lotunni og þar af leiðandi bardaganum öllum. Kapparnir fóru lítið í gólfið en gaman hefði verið að sjá þá glíma meira.

Gunnar átti upprunalega að berjast við Brasilíumanninn Thiago Alves en hann þurfti að draga sig úr bardaganum eftir að hann fékk nýrnasteina. Landi hans Gilbert Burns, sem er þrefaldur heimsmeistari í brasilísku jiu jitsu, samþykkti þá að berjast við Gunnar en hann hafði aðeins tvær vikur til að undirbúa sig undir bardagann.

Erfitt kvöld fyrir Gunna. Bardaginn er sá annar í röð sem hann tapar.

Um var að ræða 23 bardaga Gunnars en hann hefur nú unnið 17 þeirra, tapað 5 og gert eitt jafntefli. Gunnar hefur nú barist 13 sinnum í UFC-deildinni, unnið 8 bardaga og tapað 5. Þetta var þá næstsíðasti bardagi Gunnars á núverandi samningi hans hjá UFC.

Gunnar tapaði síðasta bardaga sínum fyrir Leon Edwards í London þann 16. mars síðastliðinn. Þar á undan vann hann Alex Olivera í Kanada þann 8. desember 2018.

Bardaginn í kvöld var þá tuttugasti bardagi Burns sem atvinnumaður en hann hefur unnið 17 þeirra og tapað 3.

Burns vann eftir einróma ákvörðun dómaranna.