Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék í nótt sinn hundraðasta leik í Bandaríkjunum þegar hún lék allan leikinn gegn OL Reign.

Þetta var lokaleikur tímabilsins hjá Orlando Pride en Gunnhildur er væntanleg til móts við íslenska kvennalandsliðið á næstunni fyrir umspilsleik Stelpnanna okkar gegn Belgíu eða Portúgal í undankeppni HM.

Gunnhildur var að ljúka sínu fjórða tímabil í Bandaríkjunum og öðru með Orlando Pride. Þar áður lék hún með Utah Royals.

Garðbæingurinn kom við sögu í sextán leikjum á þessu tímabili eftir að hafa spilað alla 24 leiki liðsins í fyrra.

Þetta var 88. leikur hennar í NWSL-deildinni en hún á einnig að baki tólf leiki í bikarnum (e. NWSL Challenge Cup) sem þýðir að hún er búin að ná hundrað leikjum í Bandaríkjunum.

Óvíst er hvert næsta skref Gunnhildar verður en eftir því sem Fréttablaðið komst næst er hún að renna út á samningi hjá Orlando, líkt og kærasta hennar, kanadíski markvörðurinn Erin McLeod.