Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir afþakkaði tilboð frá Ástralíu um að koma aftur í áströlsku deildina sem er leikin yfir vetrartímann þegar bandaríska deildin er ekki í gangi.

Þetta staðfesti Gunnhildur Yrsa í samtali við Fréttablaðið í dag. Það hefur tíðkast um árabil að leikmenn úr bandarísku deildinni eyði vetrartímanum í áströlsku deildinni.

„Það voru tilboð sem komu inn á borðið frá Ástralíu sem heilluðu, þetta var mjög skemmtilegt verkefni í sterkri deild en ég afþakkaði það. Markmiðið er að hvílast næstu mánuðina og taka undirbúningstímabil með Utah og mæta í toppstandi í undankeppni EM á næsta ári,“ sagði Gunnhildur, aðspurð út í áhuga frá Ástralíu.

Gunnhildur veitti Fanndísi Friðriksdóttir meðmæli í fyrra og samdi Fanndís við sama félag og Gunnhildur í fyrra. Með þær tvær innanborðs náði Adelaide besta árangri sínum í sögu félagsins.

Áströlsk félög hafa því sýnt fleiri íslenskum leikmönnum áhuga að sögn Gunnhildar

„Ég hef gefið nokkrum íslenskum leikmönnum góð meðmæli og myndi bara segja þeim að skella sér út og prófa þetta. Ástralska deildin er mjög sterk, frábærir leikmenn sem koma frá Bandaríkjunum og flestar úr ástralska landsliðinu spila þarna.“