„Ég held að við séum flestar svekktar því við spiluðum vel, lokuðum vel á þær og nýttum hápressuna mjög vel sem þær fundu engar lausnir við. Við gátum klárað leikinn fyrr en svona er fótbolti,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, svekkt eftir jafntefli Íslands og Belgíu í dag.

Gunnhildur var ekki viss með vítaspyrnudóminn þegar hún var dæmd brotleg inn í teig íslenska liðsins.

„Ég var mjög svekkt yfir þessu víti, og stundum dettur þetta ekki með manni. Á sama tíma er ég þakklát að þetta sé ég frekar en einhver annar, ég tek ábyrgðina á mig og kem enn brjálaðari í næsta leik. Ég er ekki búinn að sjá þetta aftur, en mér fannst þetta ekki vera víti.“

Hún tók undir að það hefði virst um tíma tímaspursmál hvenær Ísland myndi skora aftur.

„Dagný átti nokkra hörku skalla en þetta féll ekki með okkur í dag. Ég verð að hrósa Stelpunum því það gáfu allar allt í þetta gegn frábæru liði.“