Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og eiginkona hennar, Erin McLeod, eru að yfirgefa Orlando Pride. Þær staðfesta þetta í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins.

Gunnhildur hefur verið á mála hjá Orlando í tvö ár en nú tekur næsti kafli við.

„Orlando hefur verið heimili mitt í tvö ár og það er ekki auðvelt að kveðja. Ég er svo þakklát fyrir tíma minn hér og allt fólkið sem ég hef hitt,“ segir í yfirlýsingu Gunnhildar.

„Ég vil þakka leikmönnunum. Það voru forréttindi að spila með ykkur. Ég vil þakka starfsfólkinu. Þið buðuð mann alltaf velkominn og voruð alltaf til í að hjálpa með hvað sem er. Síðast en ekki síst vil ég þakka stuðningsmönnunum fyrir endalausan stuðning.“