„Það skiptir ekki máli hver er inn á hjá þeim, þetta eru allt heimsklassaleikmenn og ein besta knattspyrnuþjóð heims. Þótt að þær hvíli leikmenn koma aðrir jafn góðir inn sem vilja sanna sig. Við ætlum bara að einbeita okkur að okkur og hvernig við getum stoppað þær,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðskona, aðspurð hvort að það væri tvíeggja sverð að mæta Frökkum sem hefðu að engu að keppa en um leið kæmu inn leikmenn sem væru að reyna að sýna sig og sanna.

„Við horfðum á leik Belgíu og Frakklands, þar sást að þetta er hægt. Belgar stóðu sig frábærlega, vörðust vel og beittu skyndisóknum. Belgar hefðu alveg getað náð jafntefli.“

Gunnhildur segir mikilvægt að horfa á það sem var vel gert í fyrstu tveimur leikjunum, en um leið að það væri hægt að bæta hluti frá fyrstu tveimur leikjunum.

„Við gátum haldið í boltann betur, en það fór mikil orka í varnarleikinn og liðið varðist frábærlega. Það er ekki hægt að taka það af stelpunum. Ef við hefðum haldið í boltann betur hefði þetta kannski ekki verið jafn erfitt,“ segir Gunnhildur sem vildi lítið spekúlera í því hvað litlu mátti muna að Ísland væri með sex stig.

„Það er ekkert hægt að spá í því núna. Margt í þessu sem gat farið betur, við gátum skorað og um leið ekki fengið á okkur þessi mörk. Það er hægt að líta á þetta á báða boga. Fyrir mér er mikilvægara að taka það góða úr þessum leikjum, vinna í því sem við þurfum að vinna og koma í Frakkaleikinn alveg brjálaðar.“

Gunnhildur þekkir það best innan íslenska liðsins að leika í hitastigi eins og von er á næsta mánudag.

„Vön eða ekki vön, ég hef spilað mikið í þessum hita. Það er ekki gaman skal ég segja þér. Allar stelpurnar í hópnum, þær fara langt á hausnum, þannig ég hef engar áhyggjur af þeim.“

„Það verður vonandi vatnspása ef þau vilja fá skemmtilegan leik, því það eru bæði lið að spila í sama hita. Þetta á ekki að hafa meiri áhrif á okkur en þær.“