Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir segist vera orðin öflugari í pílukasti en hún sé ekki í aðdáendaklúbbi Love Island innan kvennalandsliðsins.

Þetta kom fram þegar Gunnhildur ræddi hvaða afþreyingar leikmenn væru að grípa í á hóteli kvennalandsliðsins.

„Þetta er góður hópur, við erum mikið saman og þéttar. Tíminn líður ótrúlega hratt og inn á milli þarf maður líka bara hvíldina.“

Guðrún Arnardóttir, miðvörður landsliðsins, hrósaði Gunnhildi fyrir takta í pílukasti og segist Gunnhildur hafa tekið framförum í þeim efnum.

„Ég myndi ekki segja að ég væri öflug en ég hitti allaveganna píluspjaldið. Það eru framför því ég kunni ekkert þegar við komum hingað,“ sagði Gunnhildur glettin og sagði fjölbreytni í afþreyingu.

„Við horfum mikið á leikina saman. Það er hópur sem horfir á Love Island. Ég reyndi einn þátt. Ég fer ekki aftur í það. Ég fæ ekki þann klukkutíma til baka.“