Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir á von á því að hún semji á ný við Utah Royals í bandarísku NWSL-deildinni en samningur hennar við bandaríska liðið rennur út um áramótin.

Gunnhildur Yrsa var að ljúka öðru tímabili sínu með liði Utah sem missti af úrslitakeppninni eftir að hafa áður leikið með Arna-Björnar, Grand Bodö, Stabæk og Vålerenga í Noregi ásamt Adelaide United í Ástralíu.

Samningur Gunnhildar við Utah rennur út um áramótin og hefur hún heyrt af áhuga annarra liða en gerir ráð fyrir að semja á ný við bandaríska liðið.

„Ég er samningsbundinn Utah til áramóta og má því ekki ræða við önnur lið. Ég er ekkert að velta mér upp úr því þótt að maður hafi heyrt af áhuga. Utah bauð mér nýjan samning fyrir lok tímabilsins og ég á von á því að skrifa undir hann en ég vildi taka mér smá hvíld frá knattspyrnu og var því ekkert að drífa mig í að skrifa undir,“ sagði Gunnhildur sem kann vel við sig í Bandaríkjunum.

„Mér líður ofboðslega vel hjá Utah. Ég er að spila í einni sterkustu deild heims og öll umgjörðin er til fyrirmyndar. Það eru margar af bestu knattspyrnukonum heims hérna, vel mætt á leiki og eigandi félagsins kemur vel fram við okkur leikmennina.“

Utah Royals komst ekki í úrslitakeppnina í ár eftir sérstakt tímabil. Sex leikmenn liðsins fóru á HM og Gunnhildur Yrsa tók þátt í landsliðsverkefni í sumar en deildarkeppnin hélt áfram.

„Þetta var mjög sérstakt. Það fóru sex leikmenn frá okkur á HM og fleiri í landsliðsverkefni en samt hélt deildin áfram. Svo meiddust nokkrir leikmenn hjá okkur sem kom í veg fyrir að við náðum einhverju flugi. Ég er ákveðin í að komast með þessu liði í úrslitakeppnina á næsta ári.“