Gunnar Nel­son mætir Bry­an Bar­berena í bar­daga­búrinu á vegum UFC á laugar­daginn næst­komandi og segist hann nú sem áður fyrr fara inn í bar­daga með það að mark­miði að klára and­stæðing sinn.

Ís­lendingurinn knái er mættur til Lundúna þar sem fram undan er risa bar­daga­kvöld UFC í O2-höllinni í London. Gunnar sat fyrir svörum á blaða­manna­fundi í dag þar sem hann var spurður út í komandi bar­daga sinn gegn Bar­berena.

„Ég fer alltaf inn í mína bar­daga með það að mark­miði að klára þá, það sama gerir hann og því tel ég að þessi bar­dagi muni ekki fara alla leið í dómara­úr­skurð. Ég mun reyna að klára hann eins fljótt og auðið er, ef það dregst eitt­hvað þá í annarri eða þriðju lotu. Sjáum til.“

Telja mætti Gunnar sem bar­daga­mann á heima­velli í Lundúnum en þar hefur hann oft stigið inn í bar­daga­búrið í O2-höllinni.

„Mér líður eins og ég eigi heima hérna, ég gisti á sama hóteli, sé sama fólkið og áður. Mér líður vel hér.“

Síðasti bar­dagi Gunnars fór ein­mitt fram í O2-höllinni fyrir ári síðan og þar bar hann sigur úr býtum gegn Takashi Sato.

„Það var gott að koma aftur og finna sigur­til­finninguna á nýjan leik. Fyrir bar­dagann gegn Sato hafði ég tapað tveimur bar­dögum á dómara­á­kvörðunum, það var ekki gott að koma inn í þann bar­daga með tvö töp á bakinu og því er til­finningin núna mun betri.

Um undir­búning sinn fyrir bar­daga sinn gegn Bar­berena hafði Gunnar þetta að segja:

„Fyrir síðustu bar­dagana mína hefur undir­búningurinn verið fram­úr­skarandi og gengið mjög vel í saman­burði við undir­búninginn fyrir það. Að sama skapi tel ég þá stað­reynd að ég hef verið laus við meiðsli núna til lengri tíma hafa hjálpað í þessu.“

UFC 286 bar­daga­kvöld UFC í O2-höllinni í Lundúnum fer fram á laugar­daginn næst­komandi. MMA sér­fræðingur Ís­lands, Pétur Marínó Jóns­son mun lýsa her­leg­heitunum í beinni út­sendingu á Viaplay.