Aron Guðmundsson skrifar frá O2-höllinni í Lundúnum

Gunnar Nelson vann yfirburðarsigur gegn Takashi Sato á UFC bardagakvöldinu í Lundúnum í kvöld. Gunnar vann allar loturnar í bardaganum og átti ekki í neinum vandræðum með Japanann sem átti að sama skapi engin svör við sóknum Gunnars.

Gunnar vann fyrstu lotu nokkuð örugglega, varðist sóknum Sato vel og náði honum á endanum í gólfið sem reyndist mjög ákjósanleg. Gunnar hélt Sato í gólfinu alveg þar til lotunni lauk.

Gunnar byrjaði aðra lotu mjög vel, náði nokkrum góðum höggum sem og spörkum og varðist sóknum Sato enn á ný. Hann náði Sato síðan niður í gólfið þegar 2 og hálf mínúta var eftir af annarri lotu og komst í ákjósanlega stöðu á baki Sato sem hann hélt til loka lotunnar.

Gunnar náði Sato aftur niður í gólfið þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af þriðju lotu og þaðan náði Gunnar að klára Sato og vinna magnaðan sigur í endurkomu sinni.