Körfu­boltamaður­inn Gunn­ar Ólafs­son sem yfirgaf á dögunum spænska fé­lag­ið Oviedo eftir nokkurra mánaða veru þar hefur ákveðið að leika með Stjörnunni. Samningur Gunnars við Stjörnuna er til vorsins 2022.

Gunnar skoraði 3 stig, gaf 0,5 stoðsend­ing­ar og tók 0,5 frá­köst að meðaltali í átta leikj­um í spænsku B-deild­inni en það dugði ekki til og var hann leystur undan samningi hjá Oviedo. 

Þessi uppaldi Fjölnismaður sem lék með Kefla­vík á síðustu leiktíð var þar áður í St. Francis háskólanum frá árinu 2014 til 2018. Hann hefur verið valinn í leikmannahóp íslenska landsliðsins í síðustu verkefnum liðsins.

Félagaskiptaglugginn hér heima er lokaður eins og sakir standa en opnað verður fyrir félagaskipti á nýjan leik í upphafi næsta árs. Þá getur Gunnar farið að leika með Stjörnunni sem hefur 14 stig líkt og Keflavík og Tindastóll á toppi Domino's-deildarinnar.