UFC bar­daga­kappinn Gunnar Nel­son var gestur í nýjasta þætti Blökastsins sem er í um­sjón FM95Blö bræðra Audda, Steinda Jr og Egils Einars­sonar.

Gunnar berst á bar­daga­kvöldi UFC í Lundúnum í mars og mætir þar Banda­ríkja­manninum Daniel Rodrigu­ez.

Í Blökastinu var Gunnar meðal annars spurður út í and­stæðing sinn í London og hann var sam­mála Steinda Jr. sem sagði hann hættu­legan.

„Hann er það. Hann er fyrst og fremst stri­ker, svona boxari. Hann er villtur, það er svo­lítið street í honum.“

Steindi, sem er mikill á­huga­maður um UFC benti á að þó Rodrigu­ez væri sterkastur standandi þá væri ekkert auð­velt að ná honum í gólfið, þar sem styrk­leikar Gunnars liggja.

„Hann er með nokkuð góða felli­vörn. Er það taktíkin hjá ykkur að finna bara nógu margar leiðir til þess að ná honum niður?" spurði Steindi og Gunnar svaraði því játandi.

„Já það er partur af því, að finna glufurnar í glímunni hans sem og þegar að hann er standandi.“

Hluti af undir­búningnum felist í því að horfa á fyrri bar­daga Rodrigu­ez.

„Við horfum á bar­dagana hans og reynum að koma auga á ein­hverjar venjur hjá honum, eitt­hvað sem hann hefur gert lengi og gerir enn þá, hluti sem hann hefur verið að vinna með upp á síð­kastið.

Í grunninn horfir maður á and­stæðinginn, sér hvernig hann berst og hvar menn eiga erfitt með hann og tengir það við sinn eigin styrk­leika. Með því getur maður áttað sig á því hvar and­stæðingurinn er sterkur.

Hver og einn bar­daga­maður er með sína eigin orku og stundum kemur það manni á ó­vart. Margt af þessu kemur bara þegar maður stígur inn í búrið og finnur flæðið.“

Hlusta má á viðtalið við Gunnar Nelson í Blökastinu, þar sem hann fór vítt yfir sviðið, í heild sinni hér.