Íslenski UFC bardagakappinn Gunnar Nelson segist heyra í sínum gamla félaga, írska vélbyssukjaftinum og fyrrum UFC meistaranum Conor McGregor af og til. Conor sé einfaldlega að gera Conor hluti.
Gunnar er mættur til Lundúna þar sem fram undan er bardagakvöld UFC í O2 höllinni á laugardaginn. Þar mun Gunnar mæta Bryan Barberena í búrinu og í tilefni þess sat Íslendingurinn fyrir svörum á blaðamannafundi í dag.
Gunnar og Conor æfðu mikið saman fyrir nokkrum árum síðan enda á mála hjá sama þjálfara, Íranum John Kavanagh. Þó svo að minna hafi borið á sambandi Gunnars og Conor undanfarin ár segir Gunnar að þeir haldi enn sambandi.
„Við tölum saman af og til, ekki mikið samt og aðallega í gegnum Instagram. Conor er að Conor hluti,“ sagði Gunnar um Conor sem er þekktasta nafn UFC sem hefur elskað frægðina og framan sem því fylgir.
Conor þjálfar lið bardagamanna á móti kollega sínum í UFC, Bandaríkjamanninum Michael Chandler, í raunveruleikaþættinum The Ultimate Fighter og eftir þáttaröðina munu Conor og Chandler sjálfir mætast í búrinu.
„Þetta er áhugaverður bardagi,“ sagði Gunnar á blaðamannafundi í dag aðspurður um skoðun sína á bardaganum. „Ef Conor æfir eins og maður og er í góðu formi þá mun hann lúberja hann.“
Ýjað hefur verið að því að bardaginn fari fram í millivigt sem er þyngri þyngdarflokkur en Conor er vanastur að keppa í og telur Gunnar það ekki ólíklegt að það verði raunin miðað við útlitið á Conor þessa dagana
„Hann lítur út fyrir að vera mjög stór þannig að ég yrði ekki hissa ef sá bardagi færi fram í þeim þyngdarflokki, sjáum til.“
