Ís­lenski UFC bar­daga­kappinn Gunnar Nel­son segist heyra í sínum gamla fé­laga, írska vél­byssu­kjaftinum og fyrrum UFC meistaranum Conor McGregor af og til. Conor sé ein­fald­lega að gera Conor hluti.

Gunnar er mættur til Lundúna þar sem fram undan er bardagakvöld UFC í O2 höllinni á laugardaginn. Þar mun Gunnar mæta Bryan Barberena í búrinu og í tilefni þess sat Íslendingurinn fyrir svörum á blaðamannafundi í dag.

Gunnar og Conor æfðu mikið saman fyrir nokkrum árum síðan enda á mála hjá sama þjálfara, Íranum John Kavanagh. Þó svo að minna hafi borið á sam­bandi Gunnars og Conor undan­farin ár segir Gunnar að þeir haldi enn sam­bandi.

„Við tölum saman af og til, ekki mikið samt og aðal­lega í gegnum Insta­gram. Conor er að Conor hluti,“ sagði Gunnar um Conor sem er þekktasta nafn UFC sem hefur elskað frægðina og framan sem því fylgir.

Conor þjálfar lið bar­daga­manna á móti kollega sínum í UFC, Banda­ríkja­manninum Michael Chandler, í raun­veru­leika­þættinum The Ultimate Fig­hter og eftir þátta­röðina munu Conor og Chandler sjálfir mætast í búrinu.

„Þetta er á­huga­verður bar­dagi,“ sagði Gunnar á blaða­manna­fundi í dag að­spurður um skoðun sína á bar­daganum. „Ef Conor æfir eins og maður og er í góðu formi þá mun hann lú­berja hann.“

Ýjað hefur verið að því að bar­daginn fari fram í milli­vigt sem er þyngri þyngdar­flokkur en Conor er vanastur að keppa í og telur Gunnar það ekki ó­lík­legt að það verði raunin miðað við út­litið á Conor þessa dagana

„Hann lítur út fyrir að vera mjög stór þannig að ég yrði ekki hissa ef sá bar­dagi færi fram í þeim þyngdar­flokki, sjáum til.“

Gunnar og Conor voru mikið saman á sínum tíma
Fréttablaðið/GettyImages