MMA blaðamaðurinn Steven Marrocco telur að bardagi Gunnars Nelson og Bryan Barberena, á bardagakvöldi UFC í O2 höllinni í London í kvöld, sé einn sá mest spennandi á kvöldinu. Hans mat er að Gunnar sé nú í sinni síðustu atlögu að veltivigtarbeltinu.
„Nostalgía er ábyggilega ástæðan fyrir þessu vali mínu en ég myndi velja bardaga Gunnar Nelson og Bryan Barberena,“ segir Steven við MMAfighting.com þar sem MMA sérfræðingar voru beðnir um að velja mest spennandi bardaga kvöldsins fyrir utan tvo aðalbardaga kvöldsins.
„Bardagamenn sem eru sérfræðingar í ákveðnum bardagastíl eru ekki margir þessa dagana og það var alltaf svo ánægjulegt að sjá Gunnar í búrinu á sínum tíma, vefja sig utan um andstæðinga sína á gólfinu.
Eftir því sem hann komst hærra á styrkleikaröðun veltivigtardeildarinnar reyndi hann, eða var neyddur til þess, að reyna á hæfileika sína standandi í búrinu og þar lenti hann í vandræðum gegn nokkrum bardagamönnum sem voru hátt settir í deildinni.
Í kjölfarið tók við meiðslatímabil hjá Gunnari sem sneri síðan aftur í búrið á síðasta ári, eftir rúmlega tveggja og hálfs árs fjarveru, með sigri á Takashi Sato.
„Nú 34 ára gamall er Gunnar tilbúinn í sína síðustu atlögu að beltinu í veltivigtardeildinni. Barbarena er harður í horn að taka, bardagamaður sem elskar að fara í barning í búrinu. Það gæti falist tækifæri í því fyrir Gunnar til þess að ná honum niður og klára hann með uppgjafartaki.
Ef hann nær því ekki, þá munum við fá bardaga sem er Bryan að skapi, algjör slagsmál.“