UFC-bardagakappinn Gunnar Nelson mun ekki mæta í búrið á bardagakvöldi UFC í London þann 23. júlí næstkomandi. Þetta staðfestir Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars í samtali við Fréttablaðið. Gunnar er að jafna sig eftir aðgerð á nefi.

,,Gunnar þurfti að fara í aðgerð á nefi. Þetta var staða sem við vissum að gæti komið og læknar höfðu mælst til þess að myndi fara í aðgerð á næstunni. Það var fyrir bardaga Gunnars gegn Sato fyrr á árinu," segir Haraldur í samtali við Fréttablaðið.

Samkvæmt Haraldi fékk Gunnar á sig eitt högg frá Sato á umræddu bardagakvöldi sem hæfði hann í nefið. ,,Það var ekkert svakalegt högg en nóg til þess að það lokaðist alveg önnur nösin á honum. Skoðun lækna í kjölfarið leiddi í ljós að það þyrfti að láta laga þetta."

Umrædd aðgerð er tvískipt og Gunnar hefur lokið við fyrri hluta hennar. ,,Hann má í raun og veru ekki fá nein högg á nefið í einhverja tvo til þrjá mánuði. Þar af leiðandi getur hann ekki undirbúið sig almennilega fyrir bardaga."

Þetta er svekkjandi fyrir Gunnar því eftir tveggja ára fjarveru frá búrinu vann hann sannfærandi sigur gegn Takashi Sato í London og hafði hugsað sér að komast fljótt aftur í bardagabúrið.

,,Við þurfum bara að sjá hvernig hann verður undir lok júli, byrjun ágúst. Þá verður liðinn rúmur mánuður frá seinni hluta aðgerðarinnar. Þetta er sem betur fer ekkert alvarlegt en bara eitthvað sem tekur tíma að jafna sig af og þarf að vera í lagi," segir Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars Nelsonar, UFC bardagakappa.