Aron Guðmundsson skrifar frá O2-höllinni í Lundúnum.

Gunnar Nelson var að vonum ánægður eftir yfirburðarsigur í endurkomu sinni í UFC gegn Takashi Sato í Lundúnum í kvöld. Hann hefði að sjálfsögðu vilja klára bardagann en er sammála því að um yfirburðarsigur hafi verið að ræða. Ef hann fengi að velja þá veit hann hver yrði hans næsti andstæðingur og hann nýtti tækifærið og þakkaði Íslendingum fyrir stuðninginn.

,,Tilfinningin er góð, mjög góð. Ég hefði náttúrulega vilja klára bardagann og reyndi alveg þokkalega en hann var ekki að taka vel í það. Hann hélt sér helvíti þéttum þarna í stöðunni," sagði Gunnar í samtali við Fréttablaðið í O2-höllinni í kvöld.

,,Það er svolítið erfitt á móti góðum manni að klára hann þegar að hann heldur sér frekar föstum og tekur höggin frekar en að koma sér úr stöðunni. Ég hélt alltaf að hann myndi á endanum gera mistök, reyna að koma sér út eða allavegana sækja á það en hann var alveg eins og járnkarl í fanginu á mér," segir Gunnar hlægjandi.

Gunnar tók ekki mörg högg á sig og komst óskaddaður frá bardaganum. Aðspurður að því hvort það hafi ekki bara verið gott að fá þessar mínútur í búrinu svarar Gunnar því játandi.

,,Það var frábært að fá þessar mínútur. Ég hafði mjög gaman að þessum bardaga þó að ég hefði viljað fá aðeins meira exhange standandi. Mér finnst eins og stílarnir okkar hafi verið að loka á hvor aðra. Við vorum báðir að bíða eftir counter höggum og það hafði verið gaman að sjá meira gerast standandi en heilt á litið var þetta yfirburðarsigur.

Hvenær vill hann snúa aftur í búrið?

,,Það verður bara að koma í ljós. Nú ætla ég bara komast eins fljótt aftur í gymmið eins og ég get. Ég verð í London í viku í viðbót að aðstoða annan bardagamann sem er að fara keppa, Valentín úr gymminu okkar. Ég fer síðan aftur að æfa um leið og ég kem til baka."

Gunnar var sérstaklega spurður að því áðan hvort hann myndi vilja mæta Santiago Ponzinibbio næst en Ponzinibbio vann Gunnar fyrir nokkrum árum á vafasaman hátt eftir nokkur augnpot.

,,Ef ég fengi að velja já," sagði Gunnar er hann var spurður út í næsta mögulega andstæðing.

Það var stór hópur Íslendinga í O2-höllinni í kvöld sem studdi við bakið á Gunnari, hann segir stuðninginn ólýsanlegan.,

,,Það er alveg magnað og í raun ólýsanlegt. Hvar sem ég er að keppa og hvenær sem er þá er risastór hópur sem kemur alltaf út og fylgir manni. Það er ólýsanlegt hvað maður kann að meta þennan stuðning."

Hann sendi síðan skilaboð heim til Íslands:

,,Takk kærlega fyrir mig, takk fyrir að fylgjast með og takk fyrir allan stuðninginn í gegnum þetta allt," sagði Gunnar Nelson sem vann yfirburðarsigur á bardagakvöldi UFC í kvöld.