Ís­lenski UFC bar­daga­kappinn Gunnar Nel­son er nú á fulli í undir­búningi fyrir bar­daga­kvöld UFC í London þann 18. mars næst­komandi þar sem hann mætir hinum bandaríska Daniel Rodriguez. Gunnar eyðir næstu vikum í Dublin á Ír­landi þar sem hann æfir hjá SBG.

Þar hittir hann fyrir þjálfara sinn til margra ára, hinn marg­reynda John Kavanagh sem hefur, meðal annars, þjálfað Conor McGregor á hans UFC ferli.

John er greini­lega himin­lifandi með að vera búinn að fá Gunnar aftur til SBG á Ír­landi og deilir af því til­efni myndum í færslu á sam­fé­lags­miðlinum Insta­gram þar sem hann á í fullu fangi með að hafa hemil á Gunnari.

„Alltaf gott að æfa með Gunnari,“ skrifar John í færslunni á Insta­gram.

Í mynd­bandi, sem John birtir einnig á Insta­gram, má sjá svip­myndir frá æfingu Gunnars hjá SBG undir yfir­skriftinni „Víkingarnir eru mættir í bæinn“ en Gunnar tók með sér nokkra ís­lenska bar­daga­menn til Dublin.

„Í hvert skipti sem ég er að undir­búa mig fyrir bar­daga kem ég hingað og æfi undir stjórn Johns þjálfara,“ segir Gunnar í mynd­bandinu. „Ég hef verið með honum allt frá upp­hafi míns ferils. Það eru virki­lega flottir bar­daga­menn hérna, þetta er al­gjört há­karla­búr og ég elska það.“

Þó svo að hér heima á Ís­landi búi Gunnar við æfinga­að­stæður í heimsklassa hjá Mjölni, sem og góðum bar­daga­mönnum, reynist það honum gott að sækja í reynsluna hjá SBG sem er vel þekkt MMA fé­lag á heims­vísu.

„Ég er alltaf að æfa heima á Ís­landi, er þó ekki með eins greiðan að­gang að sparr-fé­lögum þar eins og raunin er hér. Gæða­stigið hér er mjög hátt og nú snýst þetta um að fín­pússa vopnin í vopna­búri mínu og bæta við hlutum, hamast dá­lítið. Ég fæ mjög mikið út úr þessari veru hérna og reyni alltaf að mæta hingað í topp formi því strákarnir hérna eru virki­lega góðir.

Mætir þorpara í búrinu

Þann 18. mars næst­komandi þegar fram fer bar­daga­­kvöld UFC í O2-höllinni í Lundúnum. Þar mun Gunnar mæta Banda­­ríkja­manninum Daniel Rodrigu­ez í velti­vigtar­deildinni.

Frétta­blaðið leitaði til Péturs Marínós Jóns­sonar, helsta MMA-sér­fræðings þjóðarinar, á dögunum og fékk hann til þess að segja okkur að­eins meira um Rodrigu­ez.

„Rodrigu­ez hefur verið á góðu skriði frá því að hann kom inn í UFC fyrir nokkrum árum síðan. Hann var á topp 15 listanum í velti­vigtar­deildinni fyrir sinn síðasta bar­daga og hefur verið inn og út af honum síðast­liðið ár. Það þykir mjög gott að vera inni á þessum topp­lista.

Hann kom fyrst inn í UFC árið 2020 en er þrátt fyrir stuttan tíma innan bar­daga­sam­takanna búinn með níu bar­daga. Það er nokkuð vel gert. Marga af þessum bar­dögum hefur hann tekið með skömmum fyrir­vara, hann gerði það til að mynda á móti Kevin Lee og bar þar sigur úr býtum.

Á sínum at­vinnu­manna­ferli hefur hann unnið 17 bar­daga og tapað þremur, það telst nokkuð gott og innan UFC stendur ferill hans í 7 sigrum og 2 töpum.“