Íslenski UFC bardagakappinn Gunnar Nelson er nú á fulli í undirbúningi fyrir bardagakvöld UFC í London þann 18. mars næstkomandi þar sem hann mætir hinum bandaríska Daniel Rodriguez. Gunnar eyðir næstu vikum í Dublin á Írlandi þar sem hann æfir hjá SBG.
Þar hittir hann fyrir þjálfara sinn til margra ára, hinn margreynda John Kavanagh sem hefur, meðal annars, þjálfað Conor McGregor á hans UFC ferli.
John er greinilega himinlifandi með að vera búinn að fá Gunnar aftur til SBG á Írlandi og deilir af því tilefni myndum í færslu á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem hann á í fullu fangi með að hafa hemil á Gunnari.
„Alltaf gott að æfa með Gunnari,“ skrifar John í færslunni á Instagram.
Í myndbandi, sem John birtir einnig á Instagram, má sjá svipmyndir frá æfingu Gunnars hjá SBG undir yfirskriftinni „Víkingarnir eru mættir í bæinn“ en Gunnar tók með sér nokkra íslenska bardagamenn til Dublin.
„Í hvert skipti sem ég er að undirbúa mig fyrir bardaga kem ég hingað og æfi undir stjórn Johns þjálfara,“ segir Gunnar í myndbandinu. „Ég hef verið með honum allt frá upphafi míns ferils. Það eru virkilega flottir bardagamenn hérna, þetta er algjört hákarlabúr og ég elska það.“
Þó svo að hér heima á Íslandi búi Gunnar við æfingaaðstæður í heimsklassa hjá Mjölni, sem og góðum bardagamönnum, reynist það honum gott að sækja í reynsluna hjá SBG sem er vel þekkt MMA félag á heimsvísu.
„Ég er alltaf að æfa heima á Íslandi, er þó ekki með eins greiðan aðgang að sparr-félögum þar eins og raunin er hér. Gæðastigið hér er mjög hátt og nú snýst þetta um að fínpússa vopnin í vopnabúri mínu og bæta við hlutum, hamast dálítið. Ég fæ mjög mikið út úr þessari veru hérna og reyni alltaf að mæta hingað í topp formi því strákarnir hérna eru virkilega góðir.
Mætir þorpara í búrinu
Þann 18. mars næstkomandi þegar fram fer bardagakvöld UFC í O2-höllinni í Lundúnum. Þar mun Gunnar mæta Bandaríkjamanninum Daniel Rodriguez í veltivigtardeildinni.
Fréttablaðið leitaði til Péturs Marínós Jónssonar, helsta MMA-sérfræðings þjóðarinar, á dögunum og fékk hann til þess að segja okkur aðeins meira um Rodriguez.
„Rodriguez hefur verið á góðu skriði frá því að hann kom inn í UFC fyrir nokkrum árum síðan. Hann var á topp 15 listanum í veltivigtardeildinni fyrir sinn síðasta bardaga og hefur verið inn og út af honum síðastliðið ár. Það þykir mjög gott að vera inni á þessum topplista.
Hann kom fyrst inn í UFC árið 2020 en er þrátt fyrir stuttan tíma innan bardagasamtakanna búinn með níu bardaga. Það er nokkuð vel gert. Marga af þessum bardögum hefur hann tekið með skömmum fyrirvara, hann gerði það til að mynda á móti Kevin Lee og bar þar sigur úr býtum.
Á sínum atvinnumannaferli hefur hann unnið 17 bardaga og tapað þremur, það telst nokkuð gott og innan UFC stendur ferill hans í 7 sigrum og 2 töpum.“