Aron Guðmundsson
Sunnudagur 12. mars 2023
09.00 GMT

Undir­búningur Gunnars fyrir bar­dagann hefur gengið vonum framar, hann er upp á sitt besta þessa dagana. Bar­daga­kvöldið fer fram á því sem mætti kalla heima­völl hans í UFC, O2 höllinni í Lundúnum, en þar hefur Gunnar háð margar rimmurnar. Nú mætir hann Banda­ríkja­manninum Bry­an Bar­berena.

„Undir­búningurinn fyrir þennan bar­daga hefur gengið mjög vel og er í raun bara með þeim betri á UFC-ferli mínum,“ segir Gunnar við Frétta­blaðið. „Skrokkurinn er að sama skapi heill, ég er í mjög góðu formi og klár í slaginn.“

Setti strik í reikninginn

Tæpt ár er liðið frá því að Gunnar steig síðast inn í bar­daga­búrið og var það ein­mitt á bar­daga­kvöldi í O2 höllinni. Þar vann hann yfir­burða­sigur á Takashi Sato eftir að hafa fyrir bar­dagann verið frá keppni í yfir tvö og hálft ár.

Vonir stóðu til að Gunnar myndi stíga hratt og örugg­lega inn í bar­daga­búrið á nýjan leik eftir sigurinn á Sato en eftir bar­dagann kom í ljós að hann þyrfti á tvö­faldri að­gerð á nefi að halda.

GettyImages

Þó svo að um von­brigði væri að ræða á­kvað Gunnar að láta þetta ekki draga sig niður.

„Það þýddi bara ekkert fyrir mig að fara að svekkja mig á þessari stöðu sem kom upp. Ég hafði verið með það lengi á bak við eyrað að hún gæti akkúrat komið upp. Það hafði liðið langur tími frá því að læknar höfðu ullað því að mér að þetta væri að­gerð sem ég þyrfti á endanum að fara í.

Staðan snögg­versnaði í bar­daganum gegn Sato í fyrra og þá var ekki um annað að ræða en að fara í þessa að­gerð. Auð­vitað tók þetta að­eins frá manni skriðið sem maður var kominn á og ætlaði sér að við­halda en þetta er bara staða sem ég hef þurft að eiga við.“

Nær á­kveðnum fókus á Ír­landi

Gunnar hefur eytt drjúgum tíma af undir­búningi sínum fyrir komandi bar­daga á Ír­landi, nánar til­tekið hjá bar­daga­sam­tökunum SBG sem eru jafn­framt höfuð­stöðvar John Kavanagh, þjálfara Gunnars.

Þangað hefur Gunnar sótt í að­draganda bar­daga sinna í gegnum tíðina.

Hvað er það sem þú færð út úr því að verja tíma þarna við æfingar?

„Þarna eru nýir æfinga­fé­lagar, bar­daga­menn sem eru að keppa á at­vinnu­manna­stigi og með því að fara þarna út næ ég að brjóta tempóið upp í undir­búningnum. Að gera þetta hefur reynst mér mjög vel í gegnum tíðina, þetta hefur verið að hjálpa mér tölu­vert. Með þessu næ ég á­kveðnum fókus á það sem ég er að reyna að ná fram.

Það er enginn ara­grúi af æfinga­fé­lögum hér heima á Ís­landi þó svo að við höfum náð að byggja upp mjög flott starf hjá Mjölni. Það eru mjög góðir glímu­menn hér heima á Ís­landi en vantar kannski að­eins upp á eitt og annað hvað varðar MMA.

Þá er það náttúru­lega stór hluti af því að fara út til Ír­lands að geta æft betur undir hand­leiðslu þjálfara míns, John Kavanagh, og að vera í kringum hann.“

Gunnar og John hafa starfað lengi saman
GettyImages

Sama gamla sagan

Í gegnum UFC-feril Gunnars hefur það oft komið upp að skipta hefur þurft um and­stæðing hans í að­draganda bar­daga, slík staða kom í að­draganda þessa bar­daga. Upp­haf­lega átti Gunnar að mæta Daniel Rodrigu­ez, sá þurfti hins vegar að draga sig úr bar­daganum og mun Gunnar þess í stað mæta Bry­an Bar­berena.

„Ég er orðinn mjög vanur því að þetta komi upp og er því ekki að stressa mig um of á þessu. Hvað þetta sér­staka til­felli varðar þá vill nú svo vel til að skipt var úr þeim and­stæðingi sem ég átti að mæta, Daniel Rodrigu­ez, yfir í mjög sam­bæri­legan bar­daga­mann að ein­hverju leyti í Bry­an Bar­berena þó þetta verði nú aldrei sami and­stæðingurinn þá er þetta and­stæðingur sem vill láta höggin tala, svo­kallaður „sout­hpaw“ bar­daga­stíll. Þetta er bara fínt.“

Bryan Barberena er enginn aukvissi í UFC
Fréttablaðið/GettyImages

Maður sem er til í að slást

Hverjar eru helstu ógnirnar sem munu steðja að þér í bar­daganum gegn Bar­berena?

„Ég myndi segja að ég þyrfti að passa mig á spörkunum hans í lappir sem og aðrar leiðir hans til þess að reyna að koma á mig höggi standandi, til að mynda með oln­boganum eða bara þessum hefð­bundnu handar­höggum. Bry­an er reyndur bar­daga­kappi innan UFC, hann hefur verið lengi í þessu og nær oft að draga menn inn í ein­hverja vit­leysu í bar­daganum sjálfum. Hann tórir oft lengi í búrinu, og er alveg til í að slást.“

Mikil gleði­stund

Eins og fyrr sagði er komandi bar­daga­kvöld UFC í London stærsta bar­daga­kvöld sam­bandsins í Evrópu frá upp­hafi. Allt frá því að orð­rómur um bar­daga­kvöldið fór á kreik var um að ræða við­burð sem Gunnar og hans teymi vildu verða hluti af.

„Við vorum búnir að stefna að þessu í smá tíma, alveg frá því að við fengum veður af hug­myndum UFC um að halda þetta stærsta bar­daga­kvöld Evrópu í London. Okkur langaði alveg rosa­lega mikið að taka þátt á þessu kvöldi og létum UFC vita af því strax. Það var alveg mikil gleði­stund að fá þær fréttir að maður myndi vera hluti af þessu.“

Fréttablaðið/Getty

Áður and­stæðingar en nú vinir

Aðal­bar­dagi kvöldsins er titil­bar­dagi ríkjandi meistara velti­vigtar­deildarinnar Leon Edwards og Kamaru Us­man, fyrr­verandi meistara. Þetta er þriðji bar­dagi þeirra. Edwards og Gunnar mættust á sínum tíma í búrinu í bar­daga sem endaði með sigri Edwards á klofinni dómara­á­kvörðun.

Edwards og Gunnar eru hins vegar mestu mátar í dag og hafa átt í góðum sam­skiptum í að­draganda bar­dagans.

„Hann er bara vel stemmdur,“ segir Gunnar um Edwards sem mun reyna að verja titil sinn á heima­velli. „Við áttum smá spjall í upp­hafi undir­búningsins hjá mér fyrir þetta bar­daga­kvöld, þá voru uppi hug­myndir um að við myndum æfa eitt­hvað saman í að­draganda bar­daga­kvöldsins en svo hentaði það ekki.

Gunnar og Edwards mættust í búrinu á sínum tíma
Fréttablaðið/GettyImages

Ég held að hann hafi átt betri daga en í síðasta titil­bar­daga hans og Us­man, þrátt fyrir að hann hafi rotað hann undir lok bar­dagans í síðustu lotu. Mér fannst hann ekki vera neitt sér­stakur fram að því, kannski fyrir utan fyrstu lotuna. Hann virtist vera eitt­hvað þreytu­legur, var náttúru­lega að berjast þarna í Salt Lake City, borg sem er nokkuð hátt yfir sjávar­máli í um­hverfi sem hann er ekki vanur að berjast í, það spilaði svo­lítið á þolið hjá honum að mínu mati. Ég held að hann verði miklu öflugri núna, á heima­velli í London.“

Vill hengja menn

Loka­hnykkur undir­búningsins hjá Gunnari fyrir bar­daga­kvöldið er fram undan. Hvað munu næstu dagar fram að bar­daga fela í sér?

„Ég mun lítið sem ekkert sparra þessa næstu daga, núna snýst þetta bara um að halda dampi. Maður skrúfar að­eins niður í æfingunum þar sem maður er að lenda í því að fá högg á sig. Á sama tíma þarf ég að halda á­fram að svitna til þess að ná þyngdinni niður. Þetta snýst rosa mikið um að halda bara flæði núna.“

Hvernig sérðu bar­dagann gegn Bar­berena spilast fyrir þig? Hverju viltu ná fram?

„Það er náttúru­lega bara alltaf skyn­sam­legt fyrir mig að ná and­stæðingum mínum á bakið og níðast á þeim þar. Það verður plan A en hvernig ég fram­kvæmi það plan getur verið flóknara en að segja það. Mitt leik­plan er að hengja menn.“

Gunnar er illviðráðanlegur í gólfinu
Fréttablaðið/GettyImages
Athugasemdir