Gunnar barðist síðast í september 2019 gegn Gilbert Burns í bardaga sem tapaðist. Gunnar glímdi við meiðsli fyrir og eftir bardagann og hefur ekki stigið inn í búrið á vegum UFC síðan þá

,,Covid er ein ástæðan fyrir fjarveru minni en aðal ástæðan eru meiðsli sem tóku langan tíma fyrir mig að jafna mig af," sagði Gunnar í þættinum The MMA Hour í kvöld.

Gunnar hefur verið að glíma við tvö erfið rifbeinsmeiðsli. Eitt sem hann hlaut í aðdraganda bardagans við Burns og annað sem hann hlaut í æfingabardaga við kraftajötuninnn Hafþór Júlíus Björnsson.

Í samtali við Ariel Helwani í þættinum The MMA hour segist Gunnar vera í góðu standi núna. ,,Mér líður mjög vel núna." Gunnar stefnir á endurkomu í búrið á næstunni

,,Við höfum átt samtöl við UFC um bardagakvöld í London 19. mars. Það hljómar fullkomlega í mín eyru og ég er tilbúinn að berjast við hvern sem er,"sagði Gunnar í þættinum MMA hour í kvöld.

Hann segist þó vilja berjast við einn mann fremur en aðra.

..Ég vil berjast við Ponzinibbio. Þetta var hræðilegur hlutur sem hann gerði. Hann potaði viljandi í augun á mér nokkrum sinnum," sagði Gunnar.

Gunnar barðist við Santiago Ponzinibbio í júlí árið 2017. Ponzinibbio bar sigur úr býtum en sveigði reglurnar og potaði nokkrum sinnum í augun á Gunnari á meðan að bardaga þeirra stóð.

Það eru góðar fréttir fyrir stuðningsmenn Gunnars að heyra að hann sé heill heilsu og klár í bardaga. Hægt verður að búast við því að hann berjist á fyrstu mánuðum árisins 2022.