Gunnar Nelson hefur undanfarið eflt nýja hlið hjá sér en hann fann fegurðina í golfíþróttinni. Frá þessu greindi Gunnar á blaðamannafundi í dag fyrir komandi bardaga sinn gegn Bryan Barberena á bardagakvöldi UFC í Lundúnum á laugardaginn.
Íslendingurinn knái steig síðast inn í bardagabúrið á vegum UFC fyrir ári síðan er hann vann sigur gegn Takashi Sato. Á laugardaginn mun hann svo stíga enn á ný inn í bardagabúrið og berjast þar við Bryan Barberena.
Meðal þess sem Gunnar hefur gert milli bardaga sinna er að stunda nýtt áhugamál en Gunnar þykir afar liðtækur í golfi. Á blaðamannafundinum sagði hann meðal annars frá því að hann hefði farið í golfferð til Barcelona á Spáni.
„Ég hellti mér í þetta af alvöru í fyrsta skipti síðasta sumar og náði forgjöfinni niður í 15, sem er ekki slæmt. Það er margt krefjandi við golfið og þessi íþrótt er að mörgu leiti mun erfiðari en MMA. Maður getur verið að spila frábærlega í eitt skiptið og svo tekur maður næsta högg og spilar eins og versti kylfingur í heimi.
Þetta er mjög erfitt og reynir mikið á andlegu hliðina hjá manni vegna þess að maður verður geðveikur á þessu ef maður nær ekki stjórn á sjálfum sér.“