Íslenski bardagakappinn Gunnar Nelson er búinn að skrifa undir nýjan samning við UFC um fimm bardaga til viðbótar en hann átti einn bardaga eftir af fyrri samningi.

Í tilkynningu sem barst rétt í þessu frá verkefnastjóra Mjölnis, minnist Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, á að UFC hafi leitast eftir því að semja á ný við Gunnar.

„Þetta er fimm bardaga samningur sem tekur gildi strax þannig að síðasti bardagi á gamla samningnum fellur niður og má kannski segja að sé fyrsti bardaginn á nýja samningnum. Við vissum af áhuga fleiri bardagasamtaka á því að semja við Gunnar og UFC hefur að öllum líkindum vitað af því líka og viljað tryggja samning við Gunnar áfram,“ segir Haraldur.

Gunnar hefur unnið sautján af 23 bardögum sínum í UFC og einum lokið með jafntefli en hann hefur ekkert barist síðan 2019. Gunnar er í leit að næsta andstæðingi eftir að hafa tapað tveimur bardögum í röð gegn andstæðingum sem eru nú við topp heimslistans.

Hann segist aldrei hafa hugleitt af neinni alvöru að yfirgefa UFC og semja við önnur bardagasamtök, meðal annars vegna tíðra lyfjaprófa í UFC.

„UFC eru einfaldlega lang stærsta og öflugasta MMA keppnin í heiminum í dag og lyfjaprófin skipta að mínu mati gríðarlega miklu máli,“ segir Gunnar í yfirlýsingunni.

„Við vissum af áhuga annarra MMA samtaka en meðan lyfjapróf þeirra eru lítil eða engin komu aðrir bara ekki til greina. Ég hef áður sagt að ég muni aldrei taka nein ólögleg lyf og ef það er forsenda fyrir því að vera í fremstu röð þá mun ég hætta. Ég er mjög sáttur við að vera bara faðir og þjálfari ef út í það er farið. Ég hef fundið það á síðustu árum hvernig þjálfun í Mjölni gefur mér alltaf meira og meira og sé framtíð mína svo sannarlega við þjálfun þegar keppnisferli lýkur. Og ef honum lyki á morgun þá væri það bara allt í lagi. Það er hins vegar ekki stefnan alveg strax og nú er nýr samningur við UFC í höfn og ég er mjög sáttur,“ segir Gunnar enn fremur.

Gunnar er nýbúinn að ná sér af kórónaveirunni en vonast til að finna næsta andstæðing fljótlega.

„Ég er nýlega stiginn uppúr Covid og er svona að byrja æfingar aftur. Nú er bara að koma sér í almennilegt keppnisform og vonandi getum við tilkynnt næsta bardaga á næstu dögum eða vikum,“ segir Gunnar að lokum.