Gunnar Nelson mætir Claudio Silva á bardagakvöldi UFC þann 19. mars næstkomandi í O2-höllinni í Lundúnum. Fjarvera Gunnars frá búrinu hefur verið lengri en búist var við. Hann barðist síðast í september árið 2019 en meiðsli hafa sett strik í reikninginn fyrir þennan vinsæla bardagakappa. Hann hefur nú skrifað undir nýjan samning við UFC sem hljóðar upp á fimm bardaga.

Haraldur Dean Nelson, umboðsmaður og faðir Gunnars, segir í samtali við Fréttablaðið að undirbúningurinn fyrir bardagann gangi mjög vel. Gunnar fór til Írlands um tíma og æfði þar fyrir bardagann en er nú kominn aftur heim þar sem að hann mun ljúka undirbúningnum.

„Æfingar hafa gengið mjög vel hingað til og aðalatriði núna fyrir Gunnar er bara að halda sér heilum,“ segir Haraldur í samtali við Fréttablaðið. Hann segir mikla eftirvæntingu fyrir komandi bardaga. „Það er alltaf spenna fyrir þessi bardagakvöld, á því leikur enginn vafi, og kannski sérstaklega núna sökum þess hversu langt er síðan Gunnar barðist síðast.“

Gunnar er fyrsti og eini Íslendingurinn til þessa sem hefur barist á vegum UFC en fyrsti bardagi hans á vegum sambandsins var í september árið 2012.

Eftir miklar vangaveltur um framtíð Gunnars í íþróttinni ákvað hann að halda tryggð við UFC og skrifaði undir nýjan samning í janúar síðastliðnum sem felur í sér fimm bardaga.

„UFC var búið að lýsa yfir áhuga á að gera nýjan samning við Gunnar en við vorum líka búnir að skoða ýmislegt. Það voru önnur sambönd sem vildu semja við hann en Gunnar hafði bara mestan áhuga á því að halda áfram vegferð sinni í UFC,“ segir Haraldur.

„Svo kom þetta bardagakvöld í London upp, UFC hafði lýst yfir áhuga á því að Gunnar myndi berjast þar. Bardagakvöldinu hafði verið frestað í nokkur skipti vegna Covid en nú fer það fram eftir rúmar tvær vikur.“

Ákveðið var að fá spænska bardagakappann Abner Lloveras til landsins þar sem hann mun hjálpa Gunnari að undirbúa sig fyrir komandi bardaga en Abner mun síðan sjálfur berjast í Madríd á Spáni þann 12. mars næstkomandi.

Ljóst er að mikið verður um dýrðir í O2-höllinni í Lundúnum þann 19. mars og reikna má með því að Gunnar fái mikinn stuðning bæði frá Íslendingum sem og heimamönnum.

„Það var tekið eftir því þegar Gunnar barðist við Bretann Leon Edwards í Lundúnum á sínum tíma að Gunnar fékk meiri stuðning af pöllunum en Edwards. Svo hafa talsmenn UFC sagt mér að Gunnar sé mjög vinsæll hjá áhugamönnum um UFC víðs vegar um heiminn,“ segir Haraldur.

Hann segist reikna með því að stór hópur Íslendinga leggi leið sína til Lundúna að fylgjast með Gunnari berjast. „Við höfum heyrt af talsverðum áhuga og getum allt í eins átt von á því að hundruð Íslendinga verði á bardagakvöldinu.“

Aðspurður hver markmið Gunnars séu fyrir komandi bardaga segir Haraldur þau vera þau sömu og áður.

„Það er bara að mæta klár í alla bardaga og vinna þá og kannski meira núna en áður að haldast heill. Gunnar er búinn að vera að mæta meiddur til leiks í síðustu bardögum og hefði sennilega aldrei átt að fara inn í síðasta bardaga þar sem hann var nýbúinn að verða fyrir rifbeinsmeiðslum. Vonandi helst hann bara heill fram að næsta bardaga, það er stutt eftir í hann.“

Andstæðingur Gunnars, Claudio Silva, er með svarta beltið í brasilísku jiu-jitsu og þykir sterkari í gólfinu líkt og Gunnar.

„Við vitum að hann er miklu sterkari í gólfinu heldur en standandi. Hann er örvhentur, er með hættulega vinstri hönd og sparkar töluvert líka. Hans styrkur er í gólfinu en þar liggur líka styrkur Gunnars, þetta verður vonandi bara skemmtilegt viðureign,“ segir Haraldur Dean Nelson, umboðsmaður og faðir Gunnars Nelson, í samtali við Fréttablaðið.