Gunnar greindi frá því í gærkvöldi að stutt væri í endurkomu hans í búrið hjá UFC. Hann stefnir á að berjast á bardagakvöldi í London í mars á næsta ári.

Gunnar barðist síðast í september árið 2019 gegn Gilbert Burns í bardaga sem tapaðist. Gunnar glímdi við meiðsli fyrir og eftir bardagann og hefur ekki stigið inn í búrið á vegum UFC síðan þá.

Gunnar hefur verið að glíma við tvö erfið rifbeinsmeiðsli. Eitt sem hann hlaut í aðdraganda bardagans við Burns og annað sem hann hlaut í æfingabardaga við kraftajötuninnn Hafþór Júlíus Björnsson.

,,Ég meiddist í æfingabardaga við Fjallið, Hafþór Júlíus Björnsson. Ég hef ekki einu sinni sagt honum frá þessu, ég held að hann viti þetta ekki," sagði Gunnar í þættinum MMA Hour í gærkvöldi.

Gunnar segir það hafa verið skemmtilega reynslu að glíma við Hafþór. ,,Ég vildi ná að klára hann með armbar taki. Það var markmiðið mitt. En það er auðvitað erfitt að ná því gegn manni af hans stærð. Hafþór veit líka sínu viti í þessu, hann kann að beita þyngd sinni og ég meina maðurinn er 160 kíló af hreinum vöðvum."

Í átökunum datt Hafþór á Gunnar. ,,Þegar að ég reyni að klára hann dettur hann ofan á mig og ég fann eitthvað gerast í rifbeinunum hjá mér. Sekúndum eftir það fann ég að ég var byrjaður að bólgna upp. Ég ætlaði samt ekkert að greina frá þessu þarna, ég vildi reyna að klára lotuna," segir Gunnar í þættinum MMA Hour.

Gunnar segist klár í að mæta hverjum sem er í sínum næsta bardaga. Hann vill þó helst berjast við Santiago Ponzinibbio. „Ég vil berjast við Ponzinibbio. Þetta var hræðilegur hlutur sem hann gerði. Hann potaði viljandi í augun á mér nokkrum sinnum," sagði Gunnar.

Gunnar barðist við Santiago Ponzinibbio í júlí árið 2017. Ponzinibbio bar sigur úr býtum en sveigði reglurnar og potaði nokkrum sinnum í augun á Gunnari á meðan að bardaga þeirra stóð.