Bardagakappinn Gunnar Nelson er að öllum líkindum kominn með nýjan andstæðing á bardagakvöldinu sem fram fer á vegum UFC í Kaupmannahöfn 28. september næstkomandi.

Brasilíumaðurinn Thiago Alves tilkynnti það í gærkvöld að hann gæti ekki barist við Gunnar eins og til stóð vegna veikinda sinna en strax í kjölfarið skoraði samlandi Alves, Gilbert Burns, Gunnar á hólm.

Gunnar hefur tekið þeirr áskorun og nú er það forráðamanna UFC að ganga frá lausum endum og gefa grænt ljós á bardagann.

„Þetta kom snöggt upp og ég var bara á gæsaveiðum er ég fékk þessi leiðinlegu tíðindi,“ segir Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars í samtali við visi.is.

„Við tókum símafund í nótt er ég var kominn heim og vorum að vinna í þessum málum. Á endanum ákváðum við að segja UFC að Gunni væri til í að berjast við Burns. Nú er það þeirra að ganga frá málinu,“ segir Haraldur Dean enn fremur í fréttinni á visi.is.