Eftir yfirburðasigur gegn Takashi Sato á bardagakvöldi UFC í Lundúnum í mars á þessu ári áttu margir von á því að ekki liði á löngu þar til Gunnar myndi snúa aftur í bardagabúrið.

Sú var tilfinningin í herbúðum Gunnars einnig, en eitt högg sem hann fékk á sig í bardaganum varð til þess að önnur nösin á honum lokaðist, vandamál sem var viðbúið. Gunnar þurfti því að fara í tvöfalda aðgerð á nefi í sumar og hefur endurhæfingin síðan þá gengið vel. Gunnar er nú klár í slaginn á nýjan leik. Haraldur Dean Nelson, umboðsmaður og faðir Gunnars, sendi UFC tilkynningu þess efnis fyrr í vikunni.

Vill á risakvöldið

„Staðan er sú að bara núna í vikunni sendi ég UFC stöðuna á Gunnari, hann væri byrjaður að æfa á nýjan leik eftir þessa nefað­gerð og vesenið sem fylgdi því. Hann er sem­sagt til­búinn í bar­áttuna á nýjan leik en mun þó líkt og áður þurfa sinn tíma í undir­búning fyrir bar­daga,“ segir Haraldur við Frétta­blaðið.

En það voru ekki einu upp­lýsingarnar sem Haraldur sendi UFC. „Við til­kynntum UFC einnig þá af­stöðu okkar að vilja sjá Gunnar berjast á bar­daga­kvöldinu sem verður sniðið í kringum titil­bar­daga Leon Edwards og Kamaru Us­man í velti­vigtar­deildinni.“

Ekki er komin endan­leg dag­setning á það bar­daga­kvöld en það mun fara fram á Bret­landi og aðal­bar­dagi þess verður titil­bar­dagi velti­vigtar­deildarinnar, þriðji bar­daginn milli ríkjandi meistarans, Bretans Leon Edwards og Kamaru Us­man, fyrrum meistara deildarinnar. Dana White for­seti UFC hefur áður sagt að verið sé að skoða alla stærstu leik­vanga Bret­lands til að hýsa bar­daga­kvöldið.

„Það verður stærsta bar­daga­kvöld í Evrópu hingað til og það er eitt­hvað sem við höfum á­huga á að taka þátt í,“ segir Haraldur. „Senni­lega verður það ekki fyrr en ein­hvern tímann á næsta ári og vonir okkar standa til að ná jafn­vel einum bar­daga fyrir það bar­daga­kvöld, það yrði þó að vera vel fyrir bar­daga­kvöldið á Bret­landi.

Ég fékk þau við­brögð frá UFC að til­kynningar okkar væru allar saman mót­teknar og nú bíðum við bara og sjáum hvað verður. Við höfum mikinn á­huga á þessu fyrir­hugaða bar­daga­kvöldi á Bret­landi en það sama gildir líka um alla aðra bar­daga­menn í UFC. Þetta verður risa­kvöld.“

Vinsæll í Evrópu

Gunnar hefur notið, og nýtur enn, mikillar hylli innan UFC á­huga­fólks á Bret­lands­eyjum og Evrópu. Þá er sam­bandið milli hans og Edwards, ríkjandi meistarans, mjög gott. „Ég vona að þetta vinni með okkur. Sam­bandið við Edwards er gott þrátt fyrir að hann og Gunnar hafi mæst í bar­daga­búrinu á sínum tíma.“

Það fór vel á með Gunnari og Leon Edwards í mars fyrr á þessu ári
Mynd: Pétur Marínó/Mjölnir

Vin­sældir Gunnars gætu hins vegar unnið á móti honum í þessum efnum.

„UFC setur Gunnar iðu­lega á á­kveðin bar­daga­kvöld til þess að auka miða­sölu sökum vin­sælda hans, sér í lagi í Evrópu. Kannski sér sam­bandið ekki þörf á því á þessu stóra bar­daga­kvöldi sem er í smíðum á Bret­landi. UFC gæti þess vegna séð hag sinn í því að setja hann á annað bar­daga­kvöld því það mun seljast upp á þetta kvöld mjög fljótt.“

Hann er klár

Haraldur segir endur­hæfingu Gunnars síðast­liðna mánuði hafa gengið mjög vel. „Hann fór í seinni að­gerðina í lok júní og þurfti að taka því ró­lega fyrst um sinn, fara var­lega í að minnsta kosti tvo til þrjá mánuði. Það eru ekki liðnir þrír mánuðir en hann er byrjaður að æfa á fullu.

Auð­vitað tökum við var­færnis­leg skref fyrst enda viljum við að þetta sé hundrað prósent, það er betra að taka tveimur vikum lengur en skemur til að tryggja þetta. Hann er hins vegar klár, UFC veit af því og það lítur út fyrir að allt hafi gengið að óskum.“

Yfirburðir Gunnars Nelson gegn Takashi Sato í mars voru algjörir
Fréttablaðið/GettyImages

Forsetinn boðar veislu

Það er alveg ljóst að Gunnar og teymið hans vill á þetta bar­daga­kvöld sem Dana White, for­seti UFC sam­bandsins hefur boðað að fari fram á Bret­landi á næstunni, heima­velli Leon Edwards, ríkjandi velti­vigtar­meistara UFC.

Dana White, forseti UFC
Fréttablaðið/GettyImages

Sigur Leon Edwards á Kamaru Us­man í titil­bar­­daga velti­vigtar­­deildar UFC í ágúst hefur sett af stað at­burðar­rás innan UFC sam­bandsins sem miðar að bar­daga­kvöldi í Bret­landi, þar mun þriðji bar­­dagi Edwards og Us­man um titil­beltið í velti­vigtar­deildinni vera aðal­­­málið.

White hefur sjálfur sagt að undir séu stærstu leikvangar Bretlands og hefur þjóðarleikvangur Englendinga, Wembley verið nefndur þar til sögunnar.

Spennandi verður að sjá hvernig málin þróast hjá Gunnari Nelson næstu mánuðina.