Virkt samtal er í gangi milli fulltrúa Gunnars og UFC. ,,Við erum búnir að vera í samtali við UFC síðustu vikur og töluðum síðast við menn frá sambandinu í síðustu viku. Hugmyndin hjá okkur var að hann myndi keppa í Evrópu næst þegar að það er bardagakvöld þar. Við vorum með auga á bardagakvöldi í London sem hefur verið frestað í nokkur skipti út af Covid og mér skilst á það sé búið að færa það fram í mars eða apríl á næsta ári,“ sagði Haraldur Dean, umboðsmaður Gunnars.

Það er vilji UFC að Gunnar berjist á bardagakvöldi í Evrópu samkvæmt Haraldi. ,,Það er mikil aðsókn á bardagakvöld með Gunna í Evrópu og þeir vilja helst að hann berjist þar. Annars myndum við þá skoða bardagakvöld í Bandaríkjunum eða Asíu."

Bardagi í Bandaríkjunum hefur ekki verið möguleiki undanfarið hjá Gunnari vegna Covid-19 faraldursins. Visa-leyfið hjá Gunnari rann út í heimsfaraldrinum og mun þurfa að endurnýja það. Nú hafa Bandaríkin verið opnuð á ný og möguleikinn er til staðar á að berjast þar.

Glímdi lengi vel við erfið meiðsli

Gunnar hefur ekki barist síðan í september árið 2019 er hann beið í lægra haldi fyrir Gilbert Burns eftir dómaraákvörðun. Gunnar meiddist nokkrum dögum fyrir bardagann. ,,Hann er búinn að vera gíma lengi við rifbeinsmeiðsli sem hann varð fyrir rétt fyrir síðasta bardaga. Hann er orðinn góður af þeim, hefur fengið tíma til að jafna sig og er í fínu standi,“ sagði Haraldur Dean í samtali við Fréttablaðið.

John Kavanagh er enn þjálfari Gunnars að sögn Haraldar. ,,Hann er ennþá hjá John og ætlaði að fara út fyrr á þessu ári. Hann sótti um undanþágu fyrir bólusetningu á svipuðum tíma og Eurovisionfararnir fengu sína bólusetningu en því var hafnað."

GettyImages

Haraldur segir að Gunnar stefni á endurkomu í búrið fyrr en síðar. ,,Hann verður tilbúinn þegar kallið kemur með því skilyrði að við fáum góðan undirbúning fyrir bardagann,“ segir Haraldur Dean Nelson, umboðsmaður og faðir Gunnars.

Hann segist hafa orðið var við orðróma þess efnis að Gunnar væri hættur, hann segist sjálfur hafa verið spurður þeirrar spurningar margoft en er afdráttarlaus í svari til Fréttablaðsins: ,,Hann er ekki hættur.“