Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur staðfest að Ilkay Gündogan, miðvallarleikmaður liðsins, hefur greinst jákvæður af kórónaveirunni. Fram hafði komið að tveir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla væru með veiruna og nú er komið í ljós hver annar þeirra er.

Gündogan mun nú fara í 10 daga einangrun í samræmi við sóttvarnarreglur breskra stjórnvalda og þær reglur sem enska úrvalsdeildin hefur sett um smit leikmanna eða annarra sem tengjast liðum deildarinnar.

Þjóðverjinn verður þar af leiðandi ekki í leikmannahópi Manchester City þegar liðið sækir Wolves heim í fyrsta deildarleik sínum á yfirstandandi keppnistímabili.

Hann verður sömuleiðis ekki með Manchester City þegar liðið mætir Bournemouth í deildarbikarnum og svo Leicester City í deildinni. Næsti leikur sem Gündogan gæti spilað er útileikur liðsins gegn Leeds United í deildinni laugardaginn 3. október næstkomandi.

Þetta er þriðja smitið sem greinist í leikmannahópi Manchester City en áður höfðu Riyad Mahrez og Aymeric Laporte fengið veiruna. Báðir eru farnir á æfa á nýjan leik en Pep Guardiola, knattspyrnustjóri liðsins, segir að Mahrez sé leikfær í leiknum á móti Wolves í kvöld en Laporte ekki.