„Þessi undirbúningur hefur verið alger rússibanareið vegna þeirra meiðsla og veikinda sem hafa dunið á liðinu. Ég hef lítið sofið undanfarna sólarhringa. Það er alltaf erfitt að velja landsliðshóp fyrir stómót, en nú hefur það verið sérstaklega erfitt vegna fyrrgreindra skakkafalla og þess að mér finnst nokkrir leikmenn í mörgum stöðum einkar jafnir og það er erfitt að gera upp á milli þeirra," segir Guðmudur Þórður Guðmundsson um valið að þessu sinni.

„Það er auðvitað mikill skellur fyrir okkur að missa Guðjón Val svona skömmu fyrir mót. Sérstaklega af því að hann kom jákvæður út úr skoðuninni sem hann fór í mánudaginn. Því var það óvænt að heyra hversu alvarleg meiðslin væru orðin. Við þessu er hins vegar ekkert að gera og við verðum bara að tækla stöðuna eins og hún er.

Guðjón mun vera í endurhæfingu næstu daga og það er ekki loku fyrir það skotið að hann verði með á seinni stigum mótsins. Það er hins vegar ekki í fyrsta lagi eftir viku sem að við getum farið að íhuga það að hann komi inn í hópinn og spili. Þetta eru þess háttar meiðsli að það er nokkur óvissa um það hvenær hann jafnar sig," segir hann enn fremur um stöðu mála hjá hinum frábæra vinstri hornamanni.  

Ísland hefur leik á mótinu með því að mæta Króatíu á föstudaginn kemur, en liðið er svo með Spáni, Barein, Japan og Makedóníu í undanriðli mótsins sem leikinn verður í München í Þýskalandi.