Alexander Petersson, hefur nú spilað yfir 500 leiki í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta og Benedikt Bóas, umsjónarmaður Íþróttavikunar segir að þetta sé afrek sem beri að virða. ,,Hann er einstakur, hann er vél."

Guðmundur Benediktsson, íþróttalýsandi og fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, var einn af gestum þáttarins og hann tekur í sama streng og Benedikt Bóas. ,,Hann er náttúrlega bara kempa eins og sést á myndinni, þessi gaur er svaðalegur. Hann kemur frá Lettlandi til Íslands og hóf sinn feril hér með Gróttu og vann hjá Bjögga í Seglagerðinni á sama tíma. Það sem hann hefur skilað til íslenska landsliðið í gegnum sinn feril, ótrúlegt."

,,Það er ekki eins og þessi gæi hlýfi sér einhversstaðar, bara það miðað við hvernig hann spilar bæði í vörn og sókn. Kominn með yfir 500 leiki í þýsku úrvalsdeildinni og ég tek hatt minn ofan fyrir honum á hverjum degi," sagði Guðmundur Benediktsson í þættinum Íþróttavikan með Benna Bó sem hóf göngu sína í gærkvöldi á Hringbraut.

Alexander hefur leikið yfir 500 leiki í efstu deild í Þýskalandi og það hefur hann gert með fimm liðum. Grosswallstadt, Flensburg, Fuchse Berlin, Rhein-Neckar Löwen og Melsungen.

Þá er Alexander á meðal leikjahæstu leikmanna í sögu efstu deildar í Þýskalandi. Leikjahæsti leikmaðurinn er þýski markvörðurinn Carsten Lichtlein en hann á að baki 686 leiki í deildinni.

Alexander gerði eins árs samning við Melsungen fyrr á þessu ári og vann þar með Guðmundi Guðmundssyni þar til sá síðarnefndi hætti með liðið í september.

Alexander Petersson er 41 árs gamall og óvíst hvað tekur við hjá honum en í viðtali hjá handbolti.is í maí síðastliðnum sagðist hann búast við því að samningurinn sem hann gerði við Melsungen væri sá síðasti sem hann myndi gera við félag í efstu deild í Þýskalandi.