Portúgalski miðjumaðurinn Renato Sanches er á förum frá Bayern til Lille eftir misheppnaða dvöl í Bæjaralandi.

Sanches kom inn af bekknum í fyrsta leik Bayern á tímabilinu gegn Herthu Berlin um helgina þrátt fyrir að hafa óskað eftir því að fá að yfirgefa félagið í sumar.

Portúgalinn sem er 22 ára gamall var valinn efnilegasti leikmaður Evrópu (e. Golden Boy) árið 2016 eftir að hafa slegið í gegn með Benfica og portúgalska landsliðinu sem vakti áhuga stærstu liða Evrópu.

Sanches hefur aldrei tekist að standast undir væntingum hjá Bayern né hjá Swansea þar sem hann var í eitt ár á láni frá Bayern.

Þrátt fyrir það er Lille tilbúið að greiða 25 milljónir evra fyrir Sanches enda ennþá aðeins 22 ára gamall.