Guðrún Arnardóttir, landsliðskona í fótbolta, hefur samið við sigursælasta lið sænska úrvalsdeildarinnar, Rosengård.

Guðrún gengur til liðs við félagið frá Djurgårdens IF en hún hefur leikið í herbúðum þess liðs síðustu þrjú árin tæp.

Þessi 26 ára gamli varnarmaður lék með Selfossi og Breiðabliki hér heima áður en hún fór til Bandaríkjanna og lék með Santa Clara-háskólanum.

Þá hefur hún leikið 11 landsleiki fyrir Íslands hönd. Guðrún er að fylla skarð liðsfélaga síns hjá landsliðinu, Glódísar Perlu Viggósdóttur, sem samdi við Bayern München á dögunum.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu og ég tel þetta vera stórt tækifæri fyrir mig til þess að vaxa sem leikmaður.

Það er erfitt að fara frá Djurgårdens IF á miðju tímabili en mér fannst þetta réttur tímapunktur til þess að taka næsta skref á ferlinum. Ég hlakka mikið til þess að sanna mig hjá Rosengård," segir Guðrún um vistaskiptin í samtali við Fréttablaðið.

Þegar 12 umferðum er lokið af sænsku úrvalsdeildinni trónir Rosengård á toppi deildarinnar með 32 stig en liðið hefur sex stiga forskot á Häcken. Sem stendur er hlé á deildinni en keppni hefst að nýju eftir tæpan mánuð.