Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili, stendur vel að vígi eftir tvo hringi á úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi.

Hafnfirðingurinn sem leikur fyrir hönd Golfklúbbs Keilis er í fjórða sæti á tveimur höggum undir pari ásamt þremur öðrum kylfingum.

Guðrún lék fyrsta hringinn á tveimur höggum yfir pari en gerði vel í dag þegar hún kom í hús á fjórum höggum undir pari.

Guðrún Brá hefur undanfarin ár leikið á LETA-mótaröðinni, næst sterkustu mótaröð Evrópu en freistar þess nú að komast inn á sterkustu mótaröð Evrópu.

Alls eru fimm hringir leiknir á lokamótinu og fá efstu kylfingarnir þátttökurétt á tímabilinu sem er að hefjast á næstu dögum í Ástralíu.