Guðrún Brá Björg­vins­dótt­ir á enn í námunda við þau sæti sem koma henni áfram á úr­töku­mót­inu fyr­ir Evr­ópu­mótaröð kvenna í golfi. Guðrún Brá lék þriðja hringinn á mótinu sem fram fer á La Manga á Spáni á 74 högg­um eða þrem­ur yfir pari vallarins í dag.

Eftir þennan hring er Guðrún Brá í 14.-19. sæti en fimmtán efstu kylf­ing­arn­ir kom­ast í Evr­ópu­mótaröðina 2020. Hún hefur leikið hringina þrjá á samtals einu höggi yfir pari og er fjórum höggum á eftir forystusauðum mótsins.

Fjórði hringur mótsins verður spilaður á morgun og mótinu lýkur á sunnudaginn kemur en þá kemur í ljós hvort Guðrún Brá fái fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.

Þetta er í þriðja sinn sem Guðrún Brá reynir við þátttökurétt á mótinu en hún hefur áður fengið takmarkaðan rétt til þess að vera með á einstaka mótum.