Guðni Valur Guðnson keppti í dag í undankeppni kringlukastkeppninnar á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fram fer í Doha í Katar þessa dagana.

Guðni Valur kastaði kringlunni 53,91 metra en það skilaði honum í 16. sæti í sínum riðli í undankeppninni og það dugði honum ekki til þess að komast áfram í úrslitin.

Lengsta kast Guðna Vals að þessu sinni var töluvert frá besta árangri hans sem er 65,53 metrar. Hann hefur verið að glíma við meiðsli í sumar og hefur lítið getað keppt af þeim sökum.

Þetta var fjórða stórmót Guðna Vals í fullorðinsflokki en fyrsta Heimsmeistaramótið. Hann tók þátt á Ólympíuleikunum sumarið 2016 og Evrópumeistaramótinu árin 2016 og 2018.