Guðni Th Jóhannesson deilir í dag stuttu myndskeiði frá leik Íslands og Danmerkur á Evrópumótinu í handbolta þar sem hann lýsir meðal annars Laugardalshöll, þjóðarhöll Íslendinga, sem barni síns tíma.

Leikir Íslands á EM fara fram í MVM Dome höllinni í Búdapest sem er stærsta handboltahöll heims. Hún var opnuð undir lok síðasta árs og tekur rúmlega tuttugu þúsund manns í sæti.

Í færslunni fer Guðni fögrum orðum um Kristínu Steinþórsdóttur, stuðningsmann Íslands sem veifaði íslenska fánanum innan um þúsundir Ungverja í leik liðanna á dögunum áður en Guðni beindi spjótunum að Laugardalshöll.

Forsetinn segir að hann eigi margar góðar minningar úr Laugardalshöll en um leið sé hún barn síns tíma og elsta þjóðarhöll Evrópu.

Í því samhengi sé hægt að líta til þess að þótt að sú þjóðarhöll sem eigi að reisa á Íslandi eigi ekki að vera jafn stór sé spennandi að hugsa til þess að fá að fylgjast með íslenska liðinu í nýrri höll.