Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, kom áleiðis hvatningarskilaboðum til íslenska kvennalandsliðsins þegar hann borðaði hádegismat með liðinu ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur.

Þetta kom fram á blaðamannafundi kvennalandsliðsins í dag.

„Það er alltaf gaman að fá svona ný andlit og var bara ágætis tilbreyting. Þetta eru virkilega flottir fulltrúar okkar og það var gaman að fá þau og börnin þeirra með. Aðeins að fá svona léttara andrúmsloft inn í þetta. Það var gaman að hitta Guðna og Lilju og vonandi þurfum við bara að boða þau aftur,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari liðsins, aðspurður út í heimsóknina.

Aðspurð hvað Guðni var helst að ræða við Stelpurnar okkar sagði Dagný Brynjarsdóttir að hann hefði komið stuðningsskilaboðum áleiðis.

„Hann var bara að peppa okkur, segja hvað hann væri stoltur af okkur og allir heima á Íslandi. Það væri mikill stuðningur á bak við okkur og auðvitað var gaman að heyra það,“ sagði Dagný og tók undir að það væri gott að sjá ráðamenn þjóðarinnar styðja við bakið á liðinu.

„Það er ótrúlega gott pepp og gaman að sjá að þeim er annt um okkur og annt íþróttirnar. Það var frábært að fá stuðninginn frá þeim og heyra af stuðningnum heima.,“