Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs KR í knattspyrnu sendi forsvarsmönnum knattspyrnusambands Íslands væna pillu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Rúnar sagði þar meðal annars að sín tilfinning að KSÍ væri með hugann við leik Íslands og England í Þjóðadeildinni sem fram fer 5. september næstkomandi og félögum í landinu sætu á hakanum á meðan.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, og fyrrum liðsfélagi Rúnars hjá landsliðinum um nokkurra ára skeiða svarar orðum í pistli sem hann sendir fjölmiðlum í dag. Þar segir Guðni eftirfarandi um stöðu mála í þjófélaginu og knattspyrnusamfélaginu:

„Frá því að seinni bylgja Covid-veirunnar hóf göngu sína hefur starfsfólk KSÍ unnið hörðum höndum við að greina og skýra stöðuna, vernda hagsmuni og passa upp á framgang æfinga og leikja. Sú vinna hefur snúið að stjórnvöldum, UEFA og félögunum á Íslandi og felur í sér fleiri tugi funda í síma, yfir netið og í raunheimum auk þess sem hundruðir tölvupósta og símtala hafa gengið milli aðila. Undanfarnar vikur hefur UEFA, með stuðningi aðildarsambandanna, þurft að greina allar sviðsmyndir í þeim tilgangi að samræma aðgerðir og undanþágur á reglum í 55 þjóðlöndum til þess að alþjóðlegir leikir fari fram bæði hjá félagsliðum og landsliðum.

„Það er ábyrgð fólgin í því að segja að fólk sé ekki að vinna vinnuna sína. Ég sem formaður KSÍ get engan veginn tekið undir þá ósanngjörnu gagnrýni sem kom fram af hálfu þjálfara KR að starfsfólk sambandsins sé ekki að sinna aðildarfélögum okkar sem skyldi. Við getum fullyrt að það hefur farið mun meiri tími hjá okkur hér í KSÍ að sinna aðildarfélögunum okkar í þessu ástandi heldur en til undirbúnings landsleikja. Á endanum ber okkur, rétt eins og öðrum í samfélaginu, skylda til að fylgja reglum jafnt sem leiðbeiningum og tilmælum stjórnvalda og sóttvarnarlæknis. Við verðum að hlíta því og standa saman þegar mest á reynir," segir formaðurinn enn fremur.

Þá bendir Guðni á eftirfarandi punkta máli sínu til frekari stuðnings.

  • Mótum var endurraðað með frestunum í bikarnum og á Íslandsmótum meistaraflokka og yngri flokka og nýir leikdagar fundnir á um 200 leiki.
  • Ítarleg gögn voru unnin til þess að fá mótin okkar í gang aftur og undanþágu frá 2 metra reglunni þannig að fótboltinn og æfingar gætu aftur hafist.
  • Okkar vinna var notuð sem fyrirmynd fyrir aðrar iþróttagreinar í sambærilegri stöðu.