Skýrsla úttektarnefndar ÍSÍ er nú komin út. Þau mál sem þar eru tekin fyrir hafa reynt á knattspyrnuhreyfinguna og alla viðkomandi. Við viljum öll berjast gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist, og ekki síst kynferðis- og kynbundnu ofbeldi. Þessi mál eru alltaf erfið og ég sem formaður KSÍ bar ábyrgð á viðbrögðum sambandsins í þessum málum og miðlun upplýsinga um þau til fjölmiðla og almennings," segir Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum.

Guðni segist hafa getað gert betur. ,,Ég einblíndi um of á formið og trúnað við málsaðila. Ég reyndi þó eftir bestu getu í þeim tveimur málum sem komu til minnar vitundar að finna þeim réttan farveg. Annað var leyst með sátt á milli málsaðilanna sjálfra en hitt málið er nú loks komið í farveg hjá lögreglu."

Hann segir að við sem samfélag séum að stíga erfið en mikilvæg skref í samtalinu um kynferðisbrot og hvernig við tökumst á við þau. ,,Verkefnið framundan hjá knattspyrnuhreyfingunni er að taka umræðu og fræðslu um það hvernig við fyrirbyggjum kynferðisofbeldi, og að brugðist verði við þeim málum sem upp kunna að koma af festu."

,,Að lokum vil ég segja þetta: Við getum verið stolt af því starfi sem unnið er í knattspyrnuhreyfingunni. Á sama tíma og við erum ávallt gagnrýnin á okkar starf innan vallar sem utan þá er líka mikilvægt að tileinka sér jákvæðni og bjartsýni sem drífur okkur áfram til betri árangurs og í þessu samhengi til betra samfélags. Ég mun ekki tjá mig frekar um skýrslu úttektarnefndarinnar að svo stöddu," segir Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ í yfirlýsingu sem var send fjölmiðlum í dag.

Vitneskja innan KSÍ um fjórar frásagnir um kynbundið eða kynferðislegt ofbeldi

Úttektarnefnd ÍSÍ hefur komist að þeirri niðurstöðu að vitneskja hafi verið innan KSÍ um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir sem hafa starfað fyrir sambandið hafi beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi á árunum 2010-2021.

„Nefndin telur ljóst að KSÍ hafði brugðist við í þremur þessara mála, annaðhvort með því að leikmaður var sendur heim úr landsliðsverkefni eða því að viðkomandi starfaði ekki aftur fyrir KSÍ,“ segir í umfjöllun nefndarinnar um málið.

Það er jafnframt niðurstaða nefndarinnar að upplýsingar sem þáverandi formaður KSÍ veitti fjölmiðlum og almenningi í ágúst síðastliðnum um vitneskju KSÍ af frásögunum um ofbeldismál hafi verið villandi, enda var formaðurinn á sama tíma með á borði tilkynningu frá starfsmanni KSÍ um alvarlegt kynferðisofbeldi gagnvart tengdadóttur starfsmannsins. Yfirlýsingarnar samræmdust heldur ekki vitneskju um eldri tilkynningu um kæru á hendur öðrum leikmanni vegna ofbeldis. Segir í skýrslu nefndarinnar.

Að öðru leyti telur nefndin ekki forsendur til að fullyrða að fyrir hendi séu atvik í formannstíð Guðna Bergssonar sem beri sérstök einkenni þöggunar og nauðgunarmenningar. Einnig segir í skýrslu nefndarinnar að engin gögn séu til staðfestingar um að Guðni hafi boðið meintum þolanda þöggunarsamning.