„Mig minnti að þetta brot hefði verið ofbeldisbrot og ekki af kynferðislegum toga,“ sagði Guðni Bergsson formaður KSÍ um sögu ungrar konu sem steig fram í fréttum RÚV í gær og greindi frá kæru sem hún lagði fram á hendur landsliðsmanni í knattspyrnu.

Konan lýsti hvernig hún varð fyrir ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmannsins. Bréfaskriftum föður hennar til KSÍ, hvernig KSÍ bauð henni miskabætur og þagnarskyldusamning sem hún hafnaði.

Guðni kom í Kastljós á fimmtudag og sagði þar að mál væru sett í ákveðið ferli komi inn kvörtun um leikmenn. Aðspurður um hvort slík mál hefðu komið inn á borð til KSÍ svaraði Guðni; „Ekki, ekki í raun og veru með formlegum hætti.“

Leikmaðurinn bað konuna afsökunar og greiddi henni miskabætur. „KSÍ veit af ofbeldinu og velur að vera með gerendur ofbeldis innan sinna raða,“ sagði konan í fréttum RÚV í gær.